Ekki ákveðið hvernig á að nýta ljósátu ef hún veiðist

Nýtt veiðarfæri fyrir ljósátu. Mynd: Ísabella Ósk.

Fram kemur í frétt á vef RÚV að fyrirtækið Eco Marine Iceland hafi fyrr í sumar hafið tilraunaveiðar á ljósátu í Ísafjarðardjúpi með nýju veiðarfæri, í samstarfi við norskt fyrirtæki. Verkefnastjóri segir ekki liggja fyrir hvernig eigi að nýta ljósátuna ef veiðarnar gefa góða raun. Segir í fréttinni að veiðarfærið sé enn á tilraunastigi en hafi verið í þróun í Noregi um nokkurt skeið. Það er norska yrirtækið Norwegian Innovation Technology group sem hefur einkaleyfi á veiðarfærinu og er í samstarfi við Eco Marine.

Fyrr í sumar var sagt frá því á BB að skipið Rostnesvag, sem er norskur togari, hefði verið breytt allverulega svo hann henti vel í verkið. Áhöfnin, ásamt verkefnastjóra og starfsmanni Hafró, hafa dvalið í fiskveiðilögsögu Íslands, m.a. í Ísafjarðardjúpi, í sumar og munu gera fram á haust til þess að prófa tækið.

Hjá Rúv kemur fram að Hafrannsóknastofnun hafi eftirlit með verkefninu og fylgist grannt með magni og meðafla, sem hefur verið nánast enginn. Ljósáta er smátt dýr sem er mikilvæg fæða ýmissa nytjastofna, til dæmis þorsks og loðnu, og lifir aðallega á plöntusvifi. Hafró hefur mælt stofnstærð ljósátu hér við land, í Ísafjarðardjúpi árin 2011 til 2012 en ekkert fyrirtæki hefur ráðist í atvinnuveiðar. Gert er ráð fyrir tilraunaveiðum í Ísafjarðardjúpi í þrjár vikur en við landið út árið. Leyfið í Djúpinu miðast við að hámarksafköst séu undir einu prósenti stofnstærðar. Kemur fram í frétt RÚV að mun minna hafi veiðst en það.

Fyrirhugað er að sögn Daníel Guðbjartssonar, verkefnastjóra veiðanna, að fara aftur af stað til veiða í september næstkomandi. Segir Daníel að ljósáta sé rík af ómega þremur sem geri hana eftirsóknarverða og hafi hún til dæmis verið notuð í olíur, fóður og í lyfjaiðnaði. Að sögn Daníels eru ekki áform um hvernig nýta eigi ljósátuna að svo stöddu.

Þó er vaxandi markaður fyrir ljósátuolíu sem fæðubótarefni. Úr ljósátunni er aðalllega unnið dýra- og fiskafóður og lýsi. Einnig er ljósátan notuð sem beita við sportveiðar ásamt því að vera nýtt í lyfjaiðnaðinum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA