Bílasmiðja SGB orðin 5 ára

Vel hefur gengið undanfarin 5 ár hjá Sindra Gunnari í Bílasmiðju SGB.

Bílasmiðja SGB á Ísafirði átti 5 ára afmæli á dögunum og þá var slegið upp heljarinnar veislu. Það er hann Sindri Gunnar Bjarnarson sem opnaði verkstæðið fyrir 5 árum, í þeirri trú að þar yrði tæplega nóg að gera fyrir hann og mögulega einn starfsmann til viðbótar. Sú varð þó aldeilis ekki raunin því í dag eru þar alls fimm starfsmenn, sumir allan daginn og aðrir vinna með skóla.

Þrátt fyrir stórkostlegt veisluborð þá lá við að eigandinn sjálfur missti af afmælisveislunni því hann var í skóla í Reykjavík þennan dag. „Þetta var næstum dottið upp fyrir því ég var svo upptekinn,“ segir Sindri og hlær. „Ég var í meistaraskólanum á föstudeginum og hætti bara snemma og brunaði vestur.“ Sindri er að klára meistaranámi í bílasmíði og bílamálun því til stendur að lengja námið. „Það er annað hvort að taka þetta núna eða setjast á skólabekk eftir nokkur ár og vera þá bara í skóla. Fyrst ég get tekið þetta í fjarnámi núna á þremur önnum þá er það mikið sniðugra,“ segir þessi duglegi ungi maður.

En hvernig hefur gengið á þessum 5 árum? „Mér finnst eins og þetta hafi bara verið 2 ár,“ svarar Sindri og hlær dátt. „Þetta hefur gengið tiltölulega hratt og vel fyrir sig. Það eru alltaf einhverjir hnökrar en maður finnur bara leiðir í gegnum það og lagar það. Við erum tveir allan daginn og þrír að vinna með skóla. Fimm manns og ég byrjaði einn. Af því mér skildist að það væru svo fáir bílar sem færu í gegn í hverri viku að það væri kannski bara nóg fyrir tvo. En eins og staðan er núna þá gætum við verið sex allan daginn en aðstaðan ber bara ekki sex manns.“

„Hugmyndin er að byggja og stækka en ég get ekki réttlætt það nema ég sé með menntaða starfsmenn því annars gæti ég ekki leyft mér eitt eða neitt, þá yrði ég bara í vinnunni til að borga af nýja húsinu. Og mér finnst það bara vera vitleysa, frekar að gera þetta á skemmtilegu og góðu nótunum frekar en að vera alveg þræll vinnunnar. Þótt það ég sé nú reyndar hérna öllum stundum,“ segir hann og hlær kankvís.

Sindri situr greinilega sjaldan auðum höndum eða fjölskyldan hans. Kona Sindra er einnig í námi með vinnu og þau eiga þrjú lítil börn. Eins og það sé ekki nóg þá keypti Sindri bílaflutningabíl nýlega og hefur verið að sækja bílaleigubíla hingað og þangað eins og hann orðar þar, ásamt því að bjóða upp á flutninga suður. Við óskum Sindra og fjölskyldu til hamingju með þennan áfanga á Bílasmiðju SGB. Meðfylgjandi myndir tók Helga Guðný Kristjánsdóttir, ofurbóndi í Botni.


Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA