Alþjóðlegur hreinsunardagur þann 15. september

Á vef Reykhólahrepps er ábending frá Maríu Maack sem segir að þann 15. september næstkomandi sé alþjóðlegur hreinsunardagur fyrir ruslatínslu. Bendir María á í ábendingu sinni að það sé stuttur tími til stefnu til að gera tilgreindan dag að skemmtilegri uppákomu með almennri þátttöku. Segir María að afar áhugavert og þakkarvert verði að sjá hvað muni berast til byggða af rusli, sér í lagi ef smalamenn og aðrir beygji sig eftir því rusli sem verður á vegi þeirra.

Veltir María því fyrir sér hvort það séu einkum plastflöskur, pokar og dósir sem fjúka á víðavangi eða eitthvað annað og er óhætt að segja að það verði að koma í ljós hverslags rusl safnast umræddan dag. María biður alla sem vettlingi geta valdið á næstunni að safna í poka og taka  með sér heim til förgunar, hvar sem þeir verða á gangi. Það er því um að gera að taka Maríu á orðinu og er þessi tillaga í takti við það sem fólk hefur verið að taka sér fyrir hendur að undanförnu, svokallað plokk, líkt og BB hefur vakið athygli á í sumar. Gengur það út á að fólk safni rusli sem verður á vegi þess í göngu- eða hlaupaferðum sínum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA