Alþjóðleg GIS ráðstefna á Ísafirði

Háskólasetur Vestfjarða vinnur að undirbúningi alþjóðlegu ráðstefnunnar CoastGIS 2018 sem haldin verður á Ísafirði dagana 27.- 29. september.

Háskólasetrið er gestgjafi ráðstefnunnar í ár en þetta er í þrettánda sinn sem hún er haldin. Markmið ráðstefnunnar er að miðla þekkingu, hugmyndum og reynslu af notkun gagna og upplýsingatækni til að öðlast betri þekkingu á stjórnun strandsvæða og auðlindum þeirra.

Yfir 80 ráðstefnugestir allsstaðar að úr heiminum og frá Íslandi, hafa boðað komu sína. Flestir eru úr heimi vísinda og fræða, stjórnsýslunni og atvinnulífinu. Ráðstefnan fer fram í Edinborgarhúsinu og í Háskólasetrinu og stendur í tvo daga. Um það bil 40 manns munu kynna rannsóknir sínar.

Frekari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.coastgis2018.is eða hafa samband við verkefnastjóra ráðstefnunnar Astrid Fehling (astrid@uw.is / 4503043). Það er ennþá hægt að skrá sig á vefsiðunni og áhugasamir heimamenn geta einnig sótt einstaka viðburði ráðstefnunnar fyrir aðeins 1000 kr. (per dag; hádegismatur og ráðstefnugögn ekki innifalin). Tekið er við þessum greiðslum á staðnum.

Óskað hefur verið eftir styrkveitingu frá Ísafjarðarbæ varðandi ráðstefnuhaldið. Styrkurinn yrði nýttur til að útbúa kynningarefni og að greiða leigu húsnæðis fyrir ráðstefnuna. Styrkbeiðnin barst bæjarráði Ísafjarðarbæjar á síðasta fundi þann 10. september síðastliðinn og mun skoða málið betur áður en ákvörðun verður tekin um málið.

 

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA