Vinnudagurinn er klukkustund styttri á Eyrarskjóli

Frá heimsókn leikskólanna í skemmtiferðaskip á Ísafirði.

Á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar þann 23. ágúst síðastliðinn var lagt fram bréf frá Þórdísi Jónu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar, þar sem kynnt var gæðamat fyrir leikskólann Eyrarskjól á Ísafirði.

Í bréfinu kemur fram að Hjallastefnan geri starfsánægjukönnun, foreldrakönnun og gæðainnlit til að meta gæði í starfi og ánægju. Þórdís skrifar að skólaárið 2017-2018 hafi verið einstaklega gott hjá Eyrarskjóli, niðurstöðurnar hafi verið framúrskarandi og að þær gæfu tilefni til að vera stolt af því starfi sem börnunum er boðið upp á.

Í bréfinu kemur einnig fram að það hafi verið gerð tilraun á leikskólanum til að stytta vinnudag starfsfólksins. Markmiðið hafi verið að draga úr vinnuálagi og gera þannig góðan skóla enn betri. Vinnudagurinn var styttur um klukkustund en verkefnið var vel undirbúið af stjórnendum og fylgt eftir með þátttöku allra starfsmanna. Hver og einn kjarni útfærði styttinguna á þann hátt sem hentaði best og ákveðið var að prófa þetta í eitt ár. Fátt bendir til þess að aftur verði snúið því bæði starfsfólk og stjórnendur eru himinlifandi með þetta nýja fyrirkomulag.

Markmið Hjallastefnunnar með innleiðingu á styttri viðveru starfsfólks er að minnka álag á starfsfólk, fækka fjarvistum vegna veikinda, minnka skrepp starfsfólks á vinnutíma, minnka brottfall vegna álagstengdra vandamála, minnka starfsmannaveltu, lengja starfsævi og auka lífsgæði auk þess að gera leikskóla Hjallastefnunnar að eftirsóknarverðum vinnustað kennara og annars fagfólks sem starfar við menntun barna.
Til að meta árangur verkefnisins var ákveðið í upphafi hvaða þættir yrðu hafðir til viðmiðunar til að meta árangurinn. Meðal þeirra þátta sem voru teknir til greina var mat starfsfólks á álagi, fjarvistargreiningar, starfsánægja, heilsuefling og ánægja foreldra með þjónustu. Þegar hafa verið skoðaðar og greindar fjarvistir og gefa þær tilefni til mikillar bjartsýni.

Gæði í skólastarfi eru fyrsta og fremsta mál hjá Hjallastefnunni segir í bréfinu og að gæðakannanir og þróun sé tekin alvarlega. Mikill metnaður ríkir og þess vegna er augljóst að styttri vinnudagur hjá starfsfólki Eyrarskjóls sé að skila sér í betra starfi og meiri starfsánægju.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA