„Þetta er rosalegt ástand“

Hveragerði. Mynd: Aðsend.

-„Þetta er allur bærinn eins og hann leggur sig,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, þar sem bæjarbúar hafa mátt þola rafmagnsbilun frá klukkan þrjú í dag. Hún segir að hátt í níu hundruð heimili búi enn við rafmagnsleysi vegna bilunarinnar en unnið er að viðgerð, samkvæmt tilkynningu frá Rarik. – – –

„Þetta er rosalegt ástand og grafalvarlegt þegar svona er,“ segir Aldís. „Við eigum sem betur fer færanlega vararafstöð.“ – – –

„Það er ljóst að við þurfum að eiga fleiri færanlegar rafstöðvar,“ segir Aldís. Hún telur ekki ólíklegt að bærinn fjárfesti í annarri vararafstöð til að bregðast við viðburðum sem þessum. „Auðvitað lærir maður af þessu. Þetta minnir mann á hversu háð við erum rafmagni,“ segir Aldís.-

Þessi tilvitnun er í frétt ruv.is seinni partinn í gær 7. ágúst 2018.
Þegar þetta er skrifað er búið að vera rafmagnslaust í Hveragerði í heilar 5 klst. Við fyrstu sýn mætti halda að verið væri að lýsa rafmagnsleysi á Vestfjörðum einhverntíma á liðnum áratugum. En svona hefur þetta gengið á þeim bæ meira og minna svo lengi sem elstu menn muna. Það sem kallast rosalegt ástand í Hveragerði hefur sem sagt oft verið daglegt brauð hérna fyrir vestan, þó eitthvað hafi það nú skánað á allra síðustu árum. Er nema furða að Vestfirðingar séu orðnir eitthvað þið vitið. En nú ættu Hvergerðingar alla vega að „fatta“ þá betur!

Hallgrímur Sveinsson.

DEILA