Skaginn3X horfir til framtíðar

Hátæknifyrirtækið Skaginn3X hefur ráðið til sín þrjá unga sjávarútvegsfræðinga frá Háskólanum á Akureyri í söluteymi fyrirtækisins. Allir hafa þeir það sameiginlegt að hafa unnið lengi í sjávarútvegi, bæði til sjós og lands.

Pétur Jakob Pétursson verður svæðissölustjóri fyrir Rússland og CIS. Hann er með Bsc. gráðu í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri auk frekara náms í sjávarútvegsfræðum, meðal annars frá Háskólanum í Tromsö í Noregi. Pétur starfaði áður við innkaup og gæðastjórnun hjá Deutche See en fyrir það starfaði hann sem gæða- og framleiðslustjóri hjá DFFU og við gæða- og sölumál hjá Samherja á Akureyri.

Þá ber næstan að nefna Böðvar Styrmisson, söluhönnuð. Böðvar er Grindvíkingur með Bsc. gráðu í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri, ásamt því að hafa stundað nám í tækniteiknun hjá Tækniskólanum. Hann starfaði áður á Fiskmarkaði Suðurnesja, enn hann hefur lengi starfað í sjávarútvegi, meðal annars sem sjómaður og í fiskvinnslum í landi.

Pétur Jakob Pétursson.
Böðvar Styrmisson.
Freysteinn Nonni Mánason.

Sá þriðji er Ísfirðingurinn Freysteinn Nonni Mánason, svæðissölustjóri fyrir Ísland. Hann er einnig með Bsc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá HA og hefur starfað lengi í kringum sjávarútveg, bæði á sjó og landi, meðal annars á Fiskmarkaði Suðurnesja, sem verkstjóri í fiskvinnslu og sem háseti og matsmaður á frystitogara.

Allir hafa þeir nú þegar hafið störf hjá fyrirtækinu og nóg er að verkefnum framundan, enda eru vörurnar frá Skaginn3X eftirsóttar bæði innan lands og utan.
„Það er umtalsverð aukning í umsvifum á okkar lykilmörkuðum þannig að þeir eru frábært viðbót við teymið okkar. Ekki síst til að tryggja áframhaldandi gott samstarf við núverandi og nýja viðskiptavini,“ segir Jón Birgir Gunnarsson, markaðs- og sölustjóri Skaginn3X

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA