Nýr sparisjóðsstjóri ráðinn til Sparisjóðs Strandamanna

Starfsfólk Sparisjóðsins. Mynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson.

Stjórn Sparisjóðs Strandamanna hefur ráðið Björn Líndal Traustason í starf sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Strandamanna. Björn Líndal er fráfarandi framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, en hann starfaði áður hjá Sparisjóði Húnaþings og Stranda og síðar hjá Landsbanka Íslands. Björn Líndal er með Bs. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og Ma. gráðu í skattarétti og reikningsskilum frá Háskóla Íslands. Björn tók við starfinu af Guðmundi Björgvin Magnússyni í gær, þann 1. ágúst.

„Sparisjóður Strandamanna hefur starfað frá árinu 1891 og er því 127 ára. Það eru ekki mörg fyrirtæki á Íslandi sem hafa átt svo langa og farsæla sögu. Ég tek við afar góðu búi þar sem sparisjóðurinn hefur eflst mjög á undanförnum áru og finn til mikillar ábygðar og auðmýktar gagnvart starfinu og sögu Sparisjóðsins,“ segir Björn Líndal. Heildareignir Sparisjóðsins skv. ársreikningi eru tæplega 3.750 milljónir króna og eigið fé um 350 milljónir króna. Stofnfjáreigendur eru 103.

Sparisjóður Kirkjubóls- og Fellshreppa var stofnaður þann 19. janúar árið 1891 en nafni hans var breytt í Sparisjóð Strandamanna árið 1995. Árið 1999 sameinaðist svo Sparisjóður Árneshrepps Sparisjóði Strandamanna. Sjóðurinn er því á meðal elstu fjármálafyrirtækja í landinu. Lengst af var starfsemin á heimili gjaldkera og þar af í rúma fimm áratugi á Kirkjubóli. Árið 1998 keypti sparisjóðurinn húsnæði Íslandspósts á Hólmavík og flutti starfsemina þangað.

Sparisjóður Strandamanna er nú með afgreiðslur á Hólmavík og á Norðurfirði. Býður hann upp á heildarlausnir í fjármálum einstaklinga og fyrirtækja með áherslu á persónulega þjónustu. Auk þess annast hann afgreiðslu fyrir Íslandspóst á Hólmavík og hefur umboð fyrir Sjóvá Almennar tryggingar hf.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA