Nýlenduvöruverzlun Súgandafjarðar er nú opin

Það kennir ýmissa grasa í Nýlenduvöruverzluninni. Mynd: Gunnhildur H. Gunnarsdóttir.

Nýlenduvöruverzlun Súgandafjarðar opnaði fyrir helgi við Rómarstíg á Suðureyri. Þar er að finna matvöru og annað góðgæti hvort sem það er fyrir heimilið eða fyrir fólk sem er á ferðinni. Nýlenduverslunin er skemmtileg ný viðbót í samfélagið á Suðureyri. Það er margt að finna í Nýlenduvöruverslunni, allt frá rjómaÍs úr vél, gosdrykki, sælgæti, ávexti og sælkeravörur sem eru seldar í samvinnu við sælkeraverslun Frú Laugu í Reykjavík. Þar má nefna hunang sem er framleitt á Íslandi, dýrindis súkkulaði og dásamleg lífræn te. að sjálfsögðu er líka hægt að versla helstu nauðsynjavörur, enda hefur ekki verið matvörubúð á Suðureyri í dágóðan tíma. Verslunin er staðsett við Rómarstíg og hófst vinna við að byggja nýtt húsnæði fyrir verslunina í maí síðast liðinn.

Gunnhildur Helga Gunnarsdóttir hannaði verslunina og sú vinna hóf núna í vor. „Ég kom bara vestur með dætur mínar tvær þann 1. maí síðastliðinn,“ segir Gunnhildur í samtali við BB. „Og við verðum hérna í vetur. Yngri dóttir mín fer í leikskólann og sú eldri er að byrja í 1. bekk, það er bara svo mikil uppbygging á Suðureyri að ég vil vera hérna áfram og fylgja versluninni eftir. Þessa viku verður opið frá 10-10 en það má reikna með að opnunartíminn verði styttur í vetur. Það hefur þó ekki verið ákveðið,“ segir Gunnhildur.

Húsið er partur af endurbyggingu fimm húsa við Rómarstíg sem byggð verða í sama stíl og þau sem stóðu á sama stað um aldamótin 1900. Hönnun verzlunarinnar byggir því á gamla stílnum en er með nútíma þægindum. Það ætti því að vera gaman fyrir bæði heimafólk og ferðalanga að líta þarna við.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA