Nemendur Lýðháskólans á aldrinum 18-62 ára

Nina Sterc, Henry Fletcher og Jay Simpson á Ingjaldssandi. Mynd: Lýðháskólinn á Flateyri.

Nú er ljóst að yfir 30 nemendur munu hefja nám við Lýðháskólann á Flateyri í haust og kennt verður á tveimur námsbrautum, Hafið, fjöllin og þú og Hugmyndir, heimurinn og þú. Eiginlegur umsóknarfrestur rann út 21. júní s.l. og til þess að eiga öruggt skólapláss og herbergi á heimavist þurftu umsóknir að berast fyrir þann tíma. Enn tekur skólinn þó við umsóknum og eru þær afgreiddar jafnóðum og þær berast.

Fjöldi nemenda skiptist jafnt niður á þær tvær brautir sem kenndar verða, 16 nemendur á hvora braut. Aldur nemenda er frá 18-62 ára en stærstur hluti nemenda er á aldrinum 20-27 ára. Nemendur koma alls staðar af landinu og eru 18 karlmenn og 14 kvenmenn eru skráð til leiks.

Í anda lýðháskóla eru ekki gerðar inngangskröfur aðrar en þær að nemendur séu tilbúnir til að taka stökkið og verja með okkur næsta vetri í öðruvísi skóla. Skráðir nemendur eru því jafn ólíkir og þeir eru margir en allir eiga þeir það sameiginlegt að vera viljugir og tilbúnir til að takast á við ólíkar og krefjandi áskoranir í nýju umhverfi og með nýjum vinum.

Undirbúningur fyrir veturinn stendur nú sem hæst og lýðháskólafólk og sjálfboðaliðar vinna hörðum höndum að því að gera húsnæði skólans tilbúið til að hýsa starfið næsta vetur. Meginstarfsemi skólans verður á 2. hæð í Hafnarstræti 11 þar sem áður voru skrifstofur Kaupfélags Önfirðinga og Dellusafnið núna síðast. Þar verður ekki aðeins sérlega hentug aðstaða til kennslu og almennrar starfsemi skólans heldur einnig frábær aðstaða fyrir nemendur til að verja tíma saman innan og utan hefðbundins skólatíma. Sem fyrr er hægt að fá upplýsingar hjá Helenu skólastjóra Lýðháskólans og má finna allar frekari upplýsingar á heimasíðu skólans.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA