Nærri 200 manns fóru í land á Hornströndum

Hesteyri. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir.

Hátt í tvö hundruð farþegar skemmtiferðaskips fóru í land í friðlandinu á Hornströndum í dag en frá þessu segir Halla Mía hjá RÚV á Vestfjörðum og skrifar jafnframt:

Skemmtiferðaskipið Le Boreal vakti athygli í fyrra þegar það setti farþega í land í friðlandinu á Hornströndum án tollskoðunar. Skipið var aftur á ferðinni í dag, fékk tollskoðun á Ísafirði, og hélt svo í Veiðileysufjörð og Hesteyrarfjörð. „Miðað við umferðina bæði af sódíökum og fólki sem ég sá þar, og fólki sem var ennþá í landi, þá myndi ég áætla að það hafi verið allavega á milli 150-200 manns sem fóru þarna í land,“ segir Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur og landvörður hjá Umhverfisstofnun, sem varð vitni að ferðum skipsins.

Unnið er að stjórnar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum, þar sem gert er ráð fyrir stærðartakmörkun skipa sem taka land í friðlandinu. Þar til slíkar reglur taka gildi er skipinu heimilt að setja fólk í land að lokinni tollskoðun. „Við höfum sent tilmæli til allra ferðaþjónustuaðila og þar á meðal þeirra sem þjónusta skemmtiferðaskipin, þar sem er óskað eftir ákveðnum fjöldatakmörkunum,“ segir Kristín. Þar sé til dæmis mælst til þess að eftir vætutímabil fari skipulagðir hópar ekki með fleiri en 20 manns í friðlandið. „Það að fá 200 manns inn í svo viðkvæmt lífríki hefur óneitanlega gríðarleg áhrif. Og ég hef áhyggjur af því að á meðan við höfum ekki tæki til að stoppa þetta þá séu bara fleiri skip á kantinum sem vilja gera þetta líka,“ segir Kristín.

Þótt glitti í regluverk um landtöku í friðlandinu á Hornströndum, eru tilvik sem þessi ekki einungis bundin við Hornstrandir. „Við þurfum að setja reglur varðandi landtöku skemmtiferðaskipa um allt land, bæði á friðlýstum svæðum og þeim sem eru ekki friðlýst og stýra þannig þessari umferð,“ segir Kristín.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA