„Merkasta skáld sinnar samtíðar“

Einar K. Guðfinnsson.

„Sturla Þórðarson var merkasta skáld sinnar samtíðar á Íslandi. Það er meira en brekkumunur á ljóðlist Sturlu Þórðarsonar og Snorra Sturlusonar föðubróður hans. Sturla var miklu meira ljóðskáld en Snorri frændi hans og útí hött að mínu viti að nefna þá í sömu andrá. Af þekktum ritum Sturlu vitum við að hann leikur á marga strengi. Stíll hans er ýmist ljóðrænn, fræðilegur eða í ætt við skáldsagnaprósa.“

Þannig kemst Matthías Johannessen skáld og ritstjóri að orði í grein um sagnaritarann Sturlu Þórðarson sem bjó á Staðarhóli. Og eins og alkunna er skyldu fáir reyna skylmingar við skáldin. Á því leikur enginn vafi að Sturla Þórðarson var einn mesti afburðamaður á sínu sviði fyrr og síðar. Allir þeir sem hafa snefil af þekkingu á samtíð hans vita að hann var ekki einasta sá mikli sagnaritari sem raun ber vitni um, heldur einn helsti valdamaður 13. aldarinnar, sjálfrar Sturlungualdar. Eftir að Snorri Sturluson hafði verið tekinn af lífi 1241 varð Sturla einn helsti áhrifamaður meðal Sturlunga sem þeir leituðu jafnan fylgis til og ráða hjá.

Einstæð öld
Þrátt fyrir það er ekki víst að nafn hans standi lifandi fyrir hugskotssjónum núlifandi Íslendinga almennt. Án þess að á það sé brugðið neinum fræðilegum kvarða má ætla að hann standi í nokkrum skugga af nafni og arfleifð frænda síns, Snorra Sturlusonar. Það breytir því þó ekki að afrek hans hljóta að skipa honum á fremsta bekk í þjóðarsögunni.
Sturlungaöldin er einstæð í sögu okkar. Með hæfilegri einföldun má halda því fram að hún hafi í rauninni verið eins konar borgarastyrjöld sem stóð um ríflega 40 ára skeið um miðja 13. öldina. Hún markaðist af vígaferlum, liðsafnaði valdamikilla höfðingja og mannfórnum. Víg Snorra Sturlusonar,Flugumýrarbrenna, Apavatnsför, Örlygsstaðabardagi, Sauðafellsför og Haugsnesbardagi, en í honum einum börðust um þúsund manns og rúmlega 100 féllu, eru allt saman kennileiti í Íslandssögunni sem flestir hafa heyrt um.

Það er svo ein af þverstæðum þessarar miklu skálmaldar að hún einkenndist ekki bara af hinum einstæða innanlandsófriði sem við þekkjum. 13. öldin var blómaskeið sagnahefðarinnar. Sumir helstu gerendurnir í átökum aldarinnar voru jafnframt sagnaritararnir, sagnfræðingar og skáld sinnar tíðar, sem óneitanlega virkar mótsagnakennt, séð frá sjónarhóli okkar leikmanna á 21. öldinni.

Sögu þessa merkismanns verði gert hátt undir höfði
Sturla Þórðarson var óneitanlega eitt af stóru nöfnunum frá þessum tíma. Höfundur Íslendingasögu, einnar gerðar Landnámabókar, einnig Hákonar sögu Hákonarsonar og sögu Magnúsar sonar hans, orti kvæði og vísur og löngum talinn höfundur Grettis sögu. Og það er síðan til marks um þá stöðu sem hann hefur að honum hafa einnig verið eignaðar aðrar Íslendingasögur, Eyrbyggju, Laxdælu og Njálu, þó það verði væntnalega aldrei sannað.
Það er því fullt tilefni til að sögu þessa mikla merkismanns sé gert hátt undir höfði. Sturla Þórðarson bjó á Staðarhóli, en ekkert minnir á búsetu hans þar. Það er vitaskuld ekki vansalaust og þess vegna er mjög brýnt að ráða á því bót. Því þó minning Sturlu Þórðarson lifi vissulega í óbrotgjörnum verkum hans, þá er það engin spurning að við getum glætt þau frekara lífi og aukið áhuga fólks á þeim og þeirri sögu sem hún flytur, ef við eigum þess kost að sækja heim hið forna höfuðból Staðarhól. Rétt eins og við heimsækjum Reykholt, heimkynni Snorra Sturlsonar eða biskupssetrin á Hólum og í Skálholti.

Það var Svavar Gestsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, sem hafði frumkvæði að því að setja saman nefnd, sem við höfum kallað Sturlunefnd, til þess að leggja þar hönd á plóg. Á engan er hallað þó að honum sé sérstaklega þakkað. Svavar hefur í vinnu nefndarinnar verið algjörlega óþreytandi, haft frumkvæði og innt af hendi nær öll verkefni sem við höfum haft með höndum – og alltaf af ótrúlegri eljusemi og áhuga. Eldmóður hans hefur laðað fleiri aðila að verkinu og verður nánari ljósi varpað á það hér í dag.

Sögulegur merkisstaður
Markmið okkar í Sturlunefndinni er að gera Staðarhól og nánasta umhverfi, að áfangastað allra þeirra sem vilja sækja sér fróðleik um það einstæða tímabil, sem Sturla Þórðarson fyrrum ábúandi átti ekki einasta drjúgan þátt í að móta, heldur að skila til okkar seinnitímamanna með verkum sínum. Við getum einfaldlega ekki leyft okkur annað en að koma þessum merkisstað í sögu okkar á þann stall sem honum ber. Staðarhóll og umhverfi hans er mikilvægur hluti hinnar sögulegu arfleifðar sem ber að varðveita og skila til okkar kynslóðar og þeirra sem á eftir okkur koma.

Viljum virkja sem flesta til þátttöku
Gaman væri ef okkur tækist að virkja sem flesta til þátttöku í þessu verkefni og við viljum gjarnan gera öllum sem það vilja kleyft að fylgjast með framvindu mála. Í því sambandi höfum við rætt um mögulega stofnun félags, Sturlufélags, sem hafi það að markmiði að vekja athygli sagnaritarans Sturlu Þórðarsonar til íslenskrar menningar. Á fjölsóttri Sturluhátíð sem haldin var á heimaslóðum sagnaritarans, 29. júlí sl, var undirskriftarlisti sem áhugasömum var boðið að rita nafn sitt á, þar sem stóð:

„Við undirrituð höfum áhuga á að frétta af stofnun Sturlufélags ef til þess kemur að slíkt félag verði stofnað. Markmið félagsins verði að vekja athygli á framlagi sagnaritarans Sturlu Þórðarsonar til íslenskrar menningar.“

Er skemmst frá að segja að viðtökur voru ótrúlega góðar og á milli 60 og 70 manns rituðu nöfn sín á listann. Þeir aðrir sem vilja taka þátt í þessu verkefni með okkur geta sent okkur Svavari Gestssyni tölvupóst þar að lútandi; ekg@ekg.is eða gestsson.svavar@gmail.com

Getur orðið eitt af krúnudjásnum sögulegrar ferðamennsku
Dalasýsla er söguríkt hérað. Við í Sturlunefndinni lítum á okkar verkefni sem einn þátt í því að opna Íslendingum og öðrum leið að þessum söguarfi sem er svo einstæður. Gullna söguhringinn, hefur Svavar Gestsson nefnt leiðina um Dalina þar sem hver merkissögustaðurinn rekur annan, þar á meðal Staðarhóll. Þá er að nefna Vínlandssetrið sem brátt mun verða að veruleika í Leifsbúð í Búðardal, undir öruggri forystu Kjartans Ragnarssonar og Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur frumkvöðla Landnámssetursins í Borgarnesi. Uppbyggingin í Ólafsdal er smám saman að hefja til verðskuldaðs vegs og virðingar þennan merka stað þar sem stóð fyrsti bændaskóli landsins. Og áfram mætti telja. Allt þetta mun í rauninni gera Dalina að einstæðri sögulegri perlufesti sem getur orðið eitt af krúnudjásnum sögulegrar ferðamennsku á Íslandi og gjörbreytt stöðu þessa merka héraðs til framtíðar.

Einar K. Guðfinnsson, formaður Sturlunefndar.

DEILA