Kynjamisrétti hjá íslenskum knattspyrnuliðum

Talsvert kynjamisrétti má finna hjá íslenskum knattspyrnuliðum að sögn Mar­grétar Bjargar Ástvalds­dótt­ur, fé­lags­fræðings og knatt­spyrnu­konu, sem flutti er­indi á ráðstefn­unni „Gend­er and Sport“, eða kyn og íþrótt­ir á dögunum í Háskólanum í Reykjavík. Margrét rannsakaði hvort að knattspyrnufélög mismuni kynjunum og skoðaði í því samhengi umgjörðina í kringum félögin. „Með umgjörðinni þá á ég við klefamál, æfingatíma, aðgang að sjúkraþjálfa, hvort lið séu með liðsstjóra og nokkra aðra þætti. Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar þá ákvað ég að taka djúp viðtöl við fyrirliða hvers liðs, bæði karla og kvenna þannig að ég hef bæði sjónarmiðin.“ segir Margrét.

Hún valdi tíu bestu kvenna og karla knattspyrnulið frá árinu 2016. „Ég komst að því að það var mikill mismunur á milli félaganna hvað þau voru að bjóða konu og körlum. Karlalið voru algjörlega í forgangi varðandi æfingatíma. Ég spurði fyrirliða hvort liðin væru með sér klefa. 90% karlaliða voru með það. 30% kvennaliða voru ekki alveg með sérklefa. Með því að vera ekki með sérklefa er átt við að yngri flokkar og skólakrakkar nota klefann líka.“ segir Margrét.

Margrét komst að því að kvennaliðin fengu ekki eins mikinn stuðning hjá sjúkraþjálfa. Sjúkraþjálfi kom oftar á æfingar hjá körlum en konum. Hún skoðaði líka liðstjóra, en helmingur liða hjá körlum voru með einn eða tvo liðsstjóra. Kvennaliðin voru oftast einungis með einn, þannig að stuðningur er meiri við karlaliðin. „Ég fékk ýmsar sögur frá fyrirliðum hvað þeir þurfa að eiga við. Sem dæmi um það er dæmi um kvennalið sem þurfti að selja klósettpappír fjórum sinnum á ári. Svo voru dæmi um styrktarkvöld þar sem karlalið fengu 70% ágóða og kvennalið 30%.“ segir Margrét.

Að sögn Margrétar þurfa íþróttafélög að huga betur að þessum málum. Hún segist velta fyrir sér hvenær þetta byrji, hvort þetta byrji í yngri flokkum og hvernig er þetta í öðrum íþróttum. „Ég held að þetta sé bara toppurinn á ísjakanum, það væri áhugavert að rannsaka þetta frekar.“ segir Margrét að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

 

Myndakredit: Aðsend mynd frá Margréti Björg

Myndatexti: Margrét Björg flutti erindi um rannsókn sína á ráðstefnunni “Gender and Sport” á dögunum.

DEILA