Kertafleyting á Patreksfirði til minningar fórnarlamba kjarnorkuárása

Kertafleyting á Patreksfirði 2018. Mynd: Guðrún Anna Finnbogadóttir

Um tuttugu manns komu saman við fjöruborðið í Króknum á Patreksfirði þann 9. ágúst til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna í Hírósíma og Nagasakí. Viðburðurinn er árlegur og er góð áminning um hvað heimsfriður er mikilvægur. Viðburðurinn hófst um klukkan 23:00 og voru flotkertið tendruð og fleytt út á fjörðinn. Á þeim tíma sem viðburðurinn hófst var orðið nógu dimmt til að kertin gátu notið sín og áttu viðstaddir notalega stund í fjörunni.

Frá árinu 1985 hafa friðarsinnar fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna í Hírósíma og Nagasakí og árétta kröfuna um heim án kjarnorkuvopna. Nýverið komu 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sér saman um sáttmála um bann við þessum skelfilegu vopnum. Krafa íslenskra kjarnorkuvopnaandstæðinga er sú að Ísland gerist aðili að þessu samkomulagi án tafar með því að skrifa undir sáttmálann.

Þetta er 34. kertafleytingin hér á landi en í ár eru 73 ár liðin frá því kjarnorkusprengjum var varpað á borgirnar Hírósíma og Nagasakí í Japan. Kertafleytingin er hefð sem upprunnin er í Japan, en athafnir af þessu tagi fara fram víða um heim.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA