Kerecis vann Mýrarboltann

Mýrarboltamótið fór fram á Bolungarvík annað árið í röð síðastliðna helgi. Það var heimaliðið Kerecis sem sigraði og var þar með krýnt Evrópumeistari í Mýrarbolta árið 2018. Sigurinn var tryggður með sigri á Mínútumönnum í hreinum úrslitaleik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni. Jóhann Bæring Gunnarsson, forsvarsmaður Mýrarboltans sagði blaðamanni BB að mótið í ár hafi sýnt fram á að það hafi verið rétt ákvörðun að færa það yfir í Bolungarvík á sínum tíma. „Þetta gekk æðislega vel fyrir sig, vellirnir í topp standi og þetta sýndi sig að vallarstæðið er frábært. Þáttakan var fín, það voru tíu lið sem mættu til leiks og aðeins eitt heimalið. Við söknum heimaliðanna, þetta eru allt lið sem koma annarsstaðar frá nema sigurliðið. Ég held að þetta taki tíma, við erum að breyta um stað og fólk þarf að átta sig á því. Við vorum kannski of seinir að láta vita að við ætlum að halda áfram.“ segir Jóhann.

Jóhann segir að veðrið hafi leikið við mótsgesti og allt hafi gengið eins og í sögu. „Við fengum frábæra gesti og mótið endaði á lokahófi í félagsheimilinu í Bolungarvík á sunnudagskvöldið þar sem öll úrslit voru auðvitað kærð eins og venjan er á lokahófi. Að sjálfsögðu var það allt samþykkt! Við erum ákveðin í að vera með tvö mót á næsta ári, annars vegar barnamót og svo Mýrarboltamót um Verslunarmannahelgina. Við erum búin að ákveða hvernig þetta verður útfært og munum gefa það út fljótlega.“ segir Jóhann að lokum. Meðfylgjandi myndir eru frá Guðmundi Fertram Sigurjónssyni.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA