Fyrrum sveitarstjórnarhjón Reykhólahrepps til liðs við Norður Salt

Hafmeyjan Alda prýðir pakkningar Norður Salts og er þar einkar glæsileg hönnun á ferðinni. Mynd: Norðursalt.

Saltverksmiðja Norður Salts á Reykhólum var opnuð haustið 2013, það styttist því í 5 ára afmæli verksmiðjunnar. Margt gott fólk hefur starfað við verksmiðjuna, uppbyggingu og framleiðslu og á heimasíðu Reykhólahrepps kemur fram að þann 1. október næstkomandi munu hjónin Ingibjörg Birna Erlingsdóttir og Hjalti Hafþórsson hefja störf þar. Þess má geta að Ingibjörg Erna er fráfarandi sveitarstjóri í Reykhólahreppi. Í tilkynningunni segir að þau hjónin hlakki mikið til að fást við framleiðslu á þessari úrvalsvöru sem sjávarsaltið er, en það er unnið á umhverfisvænan hátt úr ómenguðum sjó.

Umbúðirnar utan um glæru flögusaltpokana hafa vakið mikla athygli og ekki voru allir á eitt sáttir um teikninguna af hafmeyjunni Öldu sem skreytir pakkana. Sumum þótti hún vera dæmi um hlutgervingu kvenna og gekk málið svo langt að Facebook bannaði myndbirtingu af saltinu hjá netversluninni islandica.com. En hafmeyjan Alda er enn á sínum stað sem betur fer, enda glæsileg teikning. Umbúðirnar eru hannaðar af auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks og Jóni Helga Hólmgeirssyni vöruhönnuði og prentaðar í Odda. Alls fóru sjö mánuðir í hönnun þeirra eða álíka tími og fór í að byggja saltverksmiðjuna á Reykhólum segir á heimasíðu Reykhólahrepps. Umbúðirnar eru án alls líms og opnast að framanverðu og er innblásturinn að þeim japanskt origami.

Litirnir á pakkningunum, blár og appelsínugulur, eru skírskotun í land okkar, Ísland, lands elds og ísa. Hafmeyjan framan á pakkningunum, fyrrnefnd Alda, er merki ferskleika sjávarins í Breiðafirði og saltið í höndum hennar stendur jafnvæginu í skoðun forsvarsmanna fyrirtækisins á sjálfbærni að sögn þeirra.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA