Funduðu með þingmönnum um laxeldi í Ísafjarðardjúpi

Vigur í Ísafjarðardjúpi. Mynd: Mats Wibe Lund.

Fulltrúar sveitarfélaganna við Djúp, fiskeldisfyrirtækja með laxeldisumsóknir í Ísafjarðardjúpi og Vestfjarðarstofu funduðu á þriðjudaginn með þingmönnum kjördæmisins um stöðuna í fiskeldismálum í Ísafjarðardjúpi.

„Á fundinum fórum við yfir þá stöðu sem er í Ísafjarðardjúpi. Þar er í raun pattstaða enda eru allar leyfisumsóknir um laxeldi í biðstöðu,“ segir Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar sem sat fundinn fyrir þeirra hönd.

„Hafrannsóknarstofnun hefur talið of mikla áhættu á að hefja þar laxeldi út frá erfðablöndun við villtan fisk í Ísafjarðardjúpi. Í því mati var ekki tekið tillit til mótvægisaðgerðanna sem fiskeldisfyrirtækin hafa lagt til og við viljum að stofnunin endurskoði áhættumatið með þær forsendur inn í líkaninu. Hafró hefur sem kunnugt er, neitað því og það teljum við algjörlega ótækt. Þetta er svipað og að við værum að taka ákvarðanir í vegamálum og Vegagerðin myndi neita að gefa sér að fólk noti öryggisbelti við akstur. Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða þannig að það er mikilvægt að það sé vel haldið utan um þessi mál. Svo er ekki nú,“ segir Daníel.

Hann gagnrýnir jafnframt stefnuleysi í málaflokknum og segir að enginn þingmaður né ráðherra hafi tekið forystu varðandi þetta. „Því ríkir hér algjört reiðileysi í öllu leyfiskerfi, lagaumgjörð og framtíðarsýn. Við slíkar aðstæður þróast þetta bara einhvern veginn og það er slæmt“ segir Daníel enn fremur.

Fundarmenn ræddu einnig lagafrumvarpið sem var lagt fram í fyrra og mikilvægi þess að þar sé tekið tillit til samfélaganna þar sem að eldið fer fram. Að sögn Péturs G. Markan sveitarstjóra í Súðavík var fundurinn góður og árangursríkur. „Við finnum að skilningur þingmanna á þessu máli er að aukast og það var mikill samhljómur á meðal þeirra, sem er gott fyrir íbúa kjördæmisins. Vonandi taka þeir forystu í þessu máli og setja pressu á Sjávarútvegsráðherra og krefja Hafrannsóknarstofnun um að gefa út þá sviðsmyndagreiningu sem kallað er eftir.“

Fyrr í mánuðinum funduðu forsvarsmenn sveitarfélaganna við Djúp með bæði Sjávarútvegsráðherra og forstjóra Hafrannsóknunarstofnunar. Þar var farið yfir sömu mál með því markmiði að finna leiðir til að opna Ísafjarðardjúp fyrir laxeldi.

„Á fundum með ráðherra og forstjóra Hafró kom meðal annars fram að þróun fiskeldis á Vestfjörðum, þar með talið í Ísafjarðardjúpi stoppi á núverandi lagaumhverfi og skorti á rannsóknum. Ekki virðist vera hægt að segja til um hvernig þessi atvinnugrein eigi eftir að þróast á næstu mánuðum, árum eða áratugum. Slíkt er ekki boðlegt; í ófullkominni veröld verða endanlegar niðurstöður og upplýsingar aldrei tiltækar. Sé biðin löng er alltaf hætta á að forsendurnar sem lagt var upp með séu orðnar úreltar. Vísindin, stjórnsýslan, sveitarfélögin og fiskeldisfyrirtækin þurfa því að mínu mati að vera í sama takti svo niðurstaða fáist í því mikilvæga hagsmunamáli okkar að hefja megi laxeldi hér í Djúpinu í sátt við umhverfi og menn. Það er því skýlaus krafa okkar sem tölum fyrir hönd samfélagana við Djúp að þeir opinberu aðilar sem koma að þróun fiskeldis á svæðinu komi sér saman um tímalínu sem tekur skýrt á hvernig menn ætla að byggja upp fiskeldi til framtíðar í Ísafjarðardjúpi. Eða hafa þá manndóm í sér að segja að þeir ætli sér enga uppbyggingu.“ Segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA