Fræðsludagur skólanna gekk vel

Það voru rúmlega 70 starfsmenn grunn- og leikskóla á fræðsludegi á Hólmavík á mánudeginum. Mynd: Dagrún Ósk.

Í byrjun vikunar mánudaginn 20. ágúst var haldinn fræðsludagur skólanna í Strandabyggð, Drangsnesi, Búðardal og Reykhólum. Var dagurinn haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík að þessu sinni og komu þangað rúmlega 70 starfsmenn í grunnskólum og leikskólum sveitarfélaganna. Dagurinn gekk ljómandi vel, fólk spjallaði saman, hlýddi á fyrirlestra og gæddi sér á súpu og kaffi.

Ásta Þórisdóttir flutti erindi um samfélag, lífstíl og ábyrgð innan skóla og utan. Mynd: Dagrún Ósk.

Fjórir fjölbreyttir fyrirlestrar tengdir skólastarfinu voru haldnir á fræðsludeginum. Fyrst talaði Ásta Þórisdóttir listgreinakennari um samfélag, lífstíl og ábyrgð innan skóla og utan. Næst á dagskrá var svo Dagrún Ósk Jónsdóttir yfirnáttúrubarn í Náttúrubarnaskólanum á Ströndum sem sagði frá hvernig nota má náttúruna sem kennslustofu og læra í gegnum leiki. Valdís Einarsdóttir persónuverndarfulltrúi sagði frá persónuvernd á mannamáli og Esther Ösp Valdimarsdóttir grunnskólakennari sagði frá jóga í skólastarfi og aðferðum og ávinningi af hugleiðslu, slökun og núvitund í námi.

Esther Ösp Valdimarsdóttir sagði frá jóga í skólastarfi. Mynd: Dagrún Ósk.

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri Grunnskólans á Hólmavík sagði daginn hafa gengið mjög vel: „Ég er mjög ánægð með daginn. Við byrjuðum í fyrra að hafa svona fræðsludag, sá fyrsti var í Auðarskóla í Búðardal svo þetta er í annað skipti“. Hrafnhildur segir að það hafi verið þó nokkur samvinna milli grunnskólanna á þessum svæðum og skólastjórar þeirra hittust reglulega: „Það er alltaf að verða meira og meira samstarf. Það hefur verið stórt samstarfsverkefni í gangi í Grunnskólanum á Hólmavík og á Reykhólum um sameiginlegar kennsluáætlanir og þemavinnu sem er skipulögð og unnin á báðum stöðum, ráðgjafafyrirtækið Trappa og menntamálastofnun hafa líka komið að því verkefni“ segir Hrafnhildur.

En hver er mesti ávinningurinn af fræðsludeginum?: „Ég held að það sé ávinningurinn að við hittumst og kynnumst, tölum saman og búum til stærra skóla og fræðslusamfélag, frekar en að vinna hvert og eitt í sínu horni“ segir Hrafnhildur að lokum.

Dagrún Ósk
dagrun@bb.is

DEILA