Brunaslönguboltinn vinsæll á Fosshótelsmótinu

Vestrapúkar á Fosshótelsmóti á Patreksfirði.

Héraðssambandið Hrafna-Flóki (HHF), Íþróttafélagið Hörður á Patreksfirði og Fosshótel buðu upp á Fosshótelsmótið í knattspyrnu á Patreksfirði um síðustu helgi. Það var keppt í 8. – 4. flokki í fimm manna liðum. Allir sem vildu spila voru velkomnir því það var einfaldlega raðað börnum í lið ef þau voru ekki í neinu fyrir.

Fyrir utan hversu gaman og gefandi það var fyrir börn og fullorðna að hittast þarna, spila fótbolta og borða saman þá var einnig boðið upp á brunaslöngubolta fyrir elstu börnin. Það hefur ekki verið lítið gaman fyrir krakkana að hlaupa í gegnum froðuna og týna boltanum þar, enda tæplega þurr þráður á þeim sem tóku þarna þátt. Það gerði þó lítið til því eftir mótið bauð Vesturbyggð öllum þátttakendum í sund á Patreksfirði svo hægt væri að skola af sér froðuna.

Páll Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri HHF sagði í samtali við BB fyrir mótið að verið væri að reyna að hafa þetta Vestfjarðamót og hann hvatti íþróttafélög á svæðinu til að senda lið til þátttöku. Sú hvatning skilaði sér að einhverju leyti því þarna tóku um 70 börn þátt frá íþróttafélaginu Vestra í Ísafjarðarbæ og um 50 börn frá öðrum félögum.


Meðfylgjandi myndir eru frá Guðnýju Stefaníu Stefánsdóttur.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA