Bronsleikar Völu Flosadóttur á Bíldudal

Keppendur á vegum HHF hafa keppt á ýmsum mótum í sumar. Mynd: HHF

Bronsleikar Völu Flosadóttur fóru fram á Bíldudal miðvikudaginn 22. ágúst síðastliðinn. Að sögn Páls Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra Héraðssambands Hrafna Flóka, fór mótið vel fram og í góðu veðri. „Það voru um 60 til 65 manns sem kepptu þarna og þetta gekk mjög vel fyrir sig, það var gott veður, það mættu margir og allir voru í góðu skapi. Arnarlax bauð upp á grillaðar pylsur eftir mótið og allir fóru heim með þátttökuverðlaun. Það var keppt í spretthlaupi, langstökki, hástökki, boltakasti, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti, 400 metra og 600 metra hlaupi. Þetta var síðasta mót sumarsins fyrir yngri krakkana. Mótadagskráin klárast um næstu helgi með Meistaramóti Íslands í Reykjavík, fyrir 15 til 22 ára. Þannig að þetta var svona lokamótið fyrir okkur hér heima.“ segir Páll.

Páll segir að mótið sé til heiðurs Völu Flosadóttir, sem er frá Bíldudal. „Völlurinn sem keppt var á heitir sem sagt Völu völlur í höfuðið á Völu Flosadóttir. Þetta er að mér og fleirum vitandi eini völlurinn sem kenndur er við konu á Íslandi. Völlurinn ber því þetta nafn til heiðurs henni, því Vala Flosa er eini kvenverðlaunahafi á Ólympíuleikunum, var þriðji Íslendingurinn og hún er frá Bíldudal. Svo er þetta árlega mót til heiðurs henni.“ segir Páll að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA