Bjart framundan í rækjuvinnslunni á Hólmavík

Það er alltaf pláss fyrir meira af góðu starfsfólki í Hólmadrangi.

Forsvarsmenn Hólmadrangs, rækjuvinnslunnar á Hólmavík, eru bjartsýnir á framtíðina er varðar rækjuvinnslu. Þessa dagana er vinnslustopp hjá fyrirtækinu en á þessum tíma er alltaf gert tveggja til þriggja vikna hlé. Vinnslan mun fara af stað aftur í kringum næstkomandi mánaðarmót. Sigurbjörn Úlfarsson, framkvæmdastjóri, sagði blaðamanni BB að nóg verði að gera hjá starfsfólki fyrirtækisins í haust.

„Við vorum að vinna á fullum afköstum síðastliðna tvo til þrjá mánuði með litlum stoppum. Það gekk mjög vel, unnum að meðaltali um 100 tonn á viku, sem er fínt því allir hafa haft nóg að gera. Ég hefði helst vilja fá meira starfsfólk, ég er alveg tilbúinn að taka meira fólk hingað inn, það er alltaf pláss fyrir góðar hendur. Núna er ég að vinna að hráefnasamningum og fjármögnun inn í haustið og er þessa dagana að skipuleggja það.“ segir Sigurbjörn.

Sigurbjörn segir að fyrirtækið sé ekki með marga innlenda báta hjá sér og það fari að hægjast varðandi það í íslensku ísrækjunni. „Stærsta hlutann erum við að fá úr Barentshafi og við Nýfundnaland og Kanada. Fáum líka eitthvað úr Kyrrahafinu og fáum þetta frosið til okkar. Langstærsti markaðurinn okkar er í Bretlandi. Við höfum haft óslitna starfsemi síðan árið 1965. Við erum bjartsýn á framhaldið þótt það hafi verið öldudalir inn á milli, það er augljóslega mikil eftirspurn eftir rækju.“ segir Sigurbjörn að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA