Bætt aðstaða Tónlistarskóla Vesturbyggðar

Aðstaða fyrir tónlistarnám hefur stórbatnað. Mynd: Tónlistarskóli Vesturbyggðar.

Tónlistarskóli Vesturbyggðar mun hefja starfsemi sína á næstu dögum og segir í tilkynningu frá skólanum að undirbúningur standi yfir þessa dagana. Jafnframt segir þar að spennandi tímar séu framundan því að á báðum starfsstöðvum, á Patreksfirði og á Bíldudal muni húsnæði skólans verða stækkað.

Á Bíldudal mun starfsemin færast niður í gamla skólann og verður þar flott aðstaða með hljóðkerfi, trommusetti og fleiru líkt og á Patreksfirði og segir í tilkynningu skólans að það sé von forsvarsmanna að börn á Bíldudal muni fjölmenna í Tónlistarskólann, því að aðstöðuleysi hafi háð starfseminni þar hingað til. Að auki kemur fram að þetta nýja hljóðkerfi geri það að verkum, að hægt sé að æfa popp söng, stofna hljómsveitir og margt fleira. Kennsla yngri barnanna á Bíldudal mun áfram fara fram í húsnæði grunnskólans.

Á Patreksfirði er nýja stofan í grunnskólanum að verða tilbúin og þar verður alltaf uppstillt svið, hljóðkerfi ,trommusett og í raun allt til æfinga. Að sögn Einars Braga, skólastjóra tónlistarskólans mun þessi nýja aðstaða á báðum stöðum gjörbreyta allri aðstöðu til hópkennslu og samspils í Vesturbyggð og er það sannarslega fagnaðarefni. Bætir hann við að svokallað Tónföndur, kennsla elstu leikskóla barna í leikskólanum á Patreksfirði, muni að sjálfsögðu halda áfram, enda hefur tekist afar vel til er það varðar og er það frábært framlag.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA