Átak í friðlýsingum í verndarflokki rammaáætlunar – kynning

Umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti í ríkisstjórn þann 8. júní sl. átak í friðlýsingum í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar. Í sáttmálanum er sérstaklega kveðið á um friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar. Í núgildandi rammaáætlun eru tuttugu virkjanakostir á 12 landsvæðum í verndarflokki sem ber að friðlýsa en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun. Svæðin skulu friðlýst gagnvart orkuvinnslu og taka friðlýsingaskilmálar ekki til annarra atriða. Friðlýsingin er unnin í samræmi við málsmeðferð náttúruverndarlaga og kynnir Umhverfisstofnun friðlýsingarskilmálana og landfræðilega afmörkun viðkomandi svæða sem unnin hefur verið á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og setur í opið þriggja mánaða umsagnarferli.

Forsaga málsins er að í janúar árið 2013 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nefnd rammaáætlun. Umhverfisstofnun var falið það hlutverk að undirbúa friðlýsingu þeirra svæða sem flokkuð eru í verndarflokk samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Stjórnvöldum er ekki heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu vegna virkjunarkosta eða landsvæða sem flokkuð hafa verið í verndarflokk. Þá eru aðrar orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar einnig óheimilar að því undanskyldu að heimilt er að veita leyfi til yfirborðsrannsókna á þessum svæðum að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar og umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Hefur Umhverfisstofnun upplýst þau sveitarfélög sem hafa landsvæði í verndarflokki innan sinna marka um það ferli sem farið verður eftir við undirbúning friðlýsinganna. Gert er ráð fyrir að virkjunarkostir og landsvæði þeim tengd verði friðlýst fyrir orkuvinnslu og að auglýsing um friðlýsingu samanstandi af sex greinum. Ekki er gert ráð fyrir að sérstök umsjón eða landvarsla verði á þeim svæðum sem friðlýst verða með þessum hætti.

Þegar fyrir liggja drög að friðlýsingu einstakra svæða í verndarflokki verður tillagan auglýst eins og lög gera ráð fyrir og verður hún jafnframt send hlutaðeigandi landeigendum og öðrum rétthöfum lands, sveitarstjórnum og öðrum þeim sem hagsmuna hafa að gæta. Ráðgert er að auglýsa fyrstu drög að friðlýsingum svæða á næstunni.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA