Ætli Jón Sigurðsson hefði ekki viljað jafna lífskjörin í dag?

Þessi mynd er tekin af Jóni Sigurðssyni um fimmtugt, á hátindi manndómsáranna. Ljósmyndari ókunnur.

Nú eru breyttir tímar. Ofgnóttin hvert sem litið er. En til skamms tíma dó fjöldi Íslendinga hreinlega úr hungri. Og það sá á fólki langt fram á 20. öld. Nú deyja menn úr ofáti.

Spekingurinn í Vatnsfirði sagði:
„Já, nei, sko, sjáðu til væni. Stór hluti af þessu liði þarna á spítölunum er þar vegna þess að það hefur étið yfir sig. Og svo kýs það íhaldið góði!“ Síra Baldur var snillingur sem predikaði á stéttunum og var sannkallaður sálusorgari.

Stjórnmálamennirnir okkar eru miklar mannvitsbrekkur sem kunnugt er. Flestir þeirra tönnlast á því dag út og dag inn að við þurfum að bæta lífskjörin. Fáir tala um aðal atriðið eins og fyrri daginn: Að við þurfum að jafna lífskjörin. Við eigum nefnilega nóg af öllu og það mikið, mikið meira en nóg. En að forgangsraða. Það kunnum við ekki né viljum.

Útrýmun fátækt með einu pennastriki!
„Ef maður ætlar að gera eitthvað í spilinu, á maður að gera það strax.“ Svo sögðu gömlu bridgespilararnir. Ríkisstjórn og Alþingi ættu að huga að því í sambandi við fátæktina. Áður en allt lendir í útideyfu, rugli og kjaftæði. En smáskammtalækningar í sambandi við fátækt barna og gamalmenna duga ekki. Elstu menn muna ekki eftir öðru en sífelldu röfli um þau mál. Fram og til baka. En nú þarf að taka af skarið. Ekki þarf að tala meira eða útbúa fleiri skýrslur. Útrýmum fátækt með einu pennastriki! Jafnvel þó það þurfi að forgangsraða. Við eigum nóg af peningum.

Arnfirðingurinn Jón Sigurðsson lét sig dreyma um betri lífskjör til handa þjóð sinni með ráðum og dáð. Landsmenn voru þá bláfátækir upp til hópa. En væri hann meðal okkar í dag mundi hann trúlega blákalt heimta jafnari lífskjör henni til handa. Skrifa í Ný félagsrit um það mál. Fara um landið sveipanda sverði og heimta að við hættum að sölsa undir okkur allt þetta drasl sem fylgir okkur endalaust. Sem við förum svo með á haugana til að rýma fyrir nýju. Og heimtum svo hærra kaup. Verkfall ef menn lúffa ekki. Því miður er stór hluti þjóðarinnar alinn upp í þessari vitleysu sem mun koma okkur í koll. Nema unga fólkið taki í taumana!

Orsök og afleiðing
Þjóðin þarf að huga betur að grunnhugtökunum orsök og afleiðing. Svo tekið sé nærtækt dæmi, þá er hraðinn orsök flestra vandamála í umferðinni hvarvetna. Afleiðingarnar eru svo hin hræðilegu slys. Menn verða að aka miðað við aðstæður. Um það þarf ekki að deila. Svo er um fleira.

Hallgrímur Sveinsson.

DEILA