30 ökumenn keyrðu of hratt og 1 ölvaður fékk gistingu í fangaklefa

Alls voru 30 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur um verslunarmannahelgina í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Flestir voru þessir ökumenn stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi og í Strandasýslu segir í tilkynningu frá Lögreglunni. Þá bárust þeim þrjá tilkynningar um umferðaróhöpp en eitt atvikanna varð í Ísafjarðardjúpi, um kl.19:00 þann 6. ágúst. Þá fauk hluti farms á vörubílspalli af og lenti á vélarhlíf og framrúðu fólksbifreiðar sem var í þann mund að mæta vörubifreiðinni. Töluvert tjón hlaust af auk þess sem ökumaður og farþegi í framsæti hlutu skrámur, en framrúðan brotnaði við óhappið. Lögreglan fór á vettvang og hafði tal af ökumönnum og farþega. Ástæða er til að minna farmflytjendur á að ganga tryggilega frá farmi þannig að hann valdi ekki hættu fyrir aðra umferð. Um þetta er kveðið skýrt í umferðarlögum.

Annað óhappið varð þegar fólksbifreið lenti út af malarvegi við bæinn Miðhús í Reykhólasveit um miðjan dag þann 6. ágúst. Ökumaður hlaut minni háttar meiðsl en bifreiðin var óökufær eftir.

Þá var lögreglu tilkynnt um að tvær bifreiðar hafi orðið fyrir tjóni þegar þær mættust á Steingrímsfjarðarheiði um miðjan dag þann 4. ágúst. Engin slys urðu á fólki og skemmdir á bifreiðum minni háttar.

Einn maður gisti fangaklefa lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá var handtekinn í miðbæ Ísafjarðar snemma morguns þann 6. ágúst. Hann var ölvaður, fór ekki að fyrirmælum lögreglunnar og lét ófriðlega. Hann var látinn sofa úr sér vímuna uns honum var sleppt lausum.

Fjórar tilkynningar bárust lögreglunni um að ekið hafi verið á fé í umdæminu. Þetta mun hafa átt sér stað í Kjálkafirði, Skötufirði og á Barðaströnd. Lögreglan var með aukið eftirlit í umdæminu þessa daga og markmiðið með því var að draga úr umferðarhraða og fylgjast vel með ástandi ökumanna, allt í þágu umferðaröryggis.

Sæbjörg

bb@bb.is

 

DEILA