100 ára afmælisfagnaður Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga

Knattspyrnulið UDN á Fosshótelsmótinu á Patreksfirði á dögunum. Mynd: UDN

Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN) varð 100 ára þann 24. maí síðastliðinn. Í tilefni þess ætlar sambandið að halda upp á afmælið í Dalabúð 1. september. Hefst skemmtunin kl 14:00 og verður boðið upp á fjölbreyttar veitingar. Margt á vegum sambandsins verður til sýnis líkt og búningar, ljósmyndir frá mótum, gamlir bikarar og fleira.

Skemmtunin er fyrir alla aldurshópa og verða hoppukastalar settir upp fyrir börn ef veður leyfir. Segir í tilkynningu sambandsins á vef Reykhólahrepps að mikið af góðu fólki hafi hjálpað sambandinu í gegnum tíðina að halda uppi flottu íþróttastarfi og eru félagar hvattir til að mæta, þar sem þetta er afmæli allra félagsmanna. Segir að UDN hefði ekki starfað í 100 ár nema fyrir dugnað fólksins sem lagði hönd á plóg í gegnum tíðina.

Þess má geta að UDN afhenti Byggðasafni Dalamanna ljósmyndasafn sitt í tilefni 100 ára afmælis sambandsins. Verið er að skrá ljósmyndasafnið í Sarp (sameiginlegur gagnagrunnur íslenskra safna) þar sem það verður aðgengilegt öllum til skoðunar.

Það er viðamikið starf að skrá safnið og því lýkur ekki á örfáum dögum og ekki án hjálpar ungmennafélaga. Allar leiðréttingar og viðbótarupplýsingar eru því vel þegnar. Að sögn forsvarsmanna sambandsins þá vantar víða upplýsingar um hverjir eru á myndunum, hvað er um að vera, hver ljósmyndarinn var o.s.frv. Byggðasafn Dalamanna og Héraðsskjalasafn Dalasýslu taka svo við og varðveita myndir, skjöl og muni úr starfsemi UDN og aðildarfélaga þess.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA