Yndislegt að geta snúið aftur heim

Rebekka Hilmarsdóttir fyrrverandi bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Rebekka Hilmarsdóttir er nýr bæjarstjóri Vesturbyggðar eins og sagt var frá hér á BB. Rebekka ólst upp í Kollsvík og segir blaðamanni BB að hún sé ákaflega spennt að hefja störf í byrjun október næstkomandi. „Ég hyggst taka til starfa í byrjun október. Ég á eftir að ganga frá starfslokum hér í ráðuneytinu, en ætla að vera komin vestur á þeim tíma ef allt gengur upp. Ég er mjög spennt og hlakka til, þetta verður krefjandi og mikil áskorun en mjög skemmtilegt líka.“ segir Rebekka.

Rebekka segir að hún eigi eftir að kynnast nýrri bæjarstjórn og þeirra áherslum en ýmis málefni eru brýn í sveitarfélaginu að hennar sögn. „Málefni eins og vega-og samgöngumál og annað slíkt eru afar brýn hér á svæðinu. Ég vona að ég geti nýtt mína þekkingu og reynslu í að bæta stjórnsýsluna. Svo á ég eftir að eiga betri samtöl við meirihlutann áður en ég get farið að tjá mig og sjá fram á hvaða verkefni eru brýnust framundan þegar ég mun taka til starfa.“ segir Rebekka.

Hún segir það ákveðin forréttindi að fá að taka þátt í svona starfi og að yndislegt sé að geta snúið aftur heim. „Það er eitt sem maður hefur horft til er að atvinnumöguleikar manns ef maður hefur farið og ná sér í talsvert mikla menntun, þeir hafa því miður verið takmarkaðir. Ég hef reglulega litið yfir og séð hvort eitthvað spennandi væri í boði til að geta komist heim, en það hefur ekki verið um auðugan garð að gresja varðandi það og þess vegna er þetta frábært tækifæri. Ég hlakka mikið til að koma til starfa og starfa fyrir þetta öfluga sveitarfélag með öllu þessu frábæra og duglega fólki sem er á staðnum.“ segir Rebekka að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA