Vatn rennur nú á afmörkuðum svæðum í göngunum

Framvindan í Dýrafjarðargöngum í viku 27.

Í viku 27 voru grafnir 80,0 m í göngunum og lengd ganganna við lok þeirrar viku voru 2.901,9 m sem er 54,7 % af heildarlengd ganganna.

Í lok síðustu viku var grafið í sprungu sem var í vinstri veggnum og lak nokkuð af vatni úr henni. Þegar greftri var haldið áfram kom í ljós að um var að ræða misgengi sem liggur skáhalt í gegnum göngin. Við enda misgengisins er svo berggangur sem liggur meira þvert á göngin. Vatnið rennur nú á afmörkuðum stöðum í veggjunum til sitthvorrar handar. Rennslið úr sprungunni er í heildina um 20 l/s og hefur rennslið minnkað aðeins frá því að opnaðist fyrst á vatnsæðina. Heildarrennsli vatns úr göngunum mældist rúmir 43 l/s. Hitastig vatnsins hefur lækkað úr 15,5 °C í 14,0 °C. Þegar komið var framhjá innskotinu tók við nánast þurrt basalt. Efnið úr göngunum var að hluta keyrt á haugsvæði til síðari nota.

Haldið var áfram með skeringu suður af Mjólká og lítillega fyllt í veginn utan við munnan ásamt því að verið var að móta fláafleyga. Klárað var að rífa brúna yfir Hófsá og útbúa plan til að nota við niðurrekstur staura fyrir nýju brúna yfir Hófsá.

Í Dýrafirði var haldið áfram með aðstöðusköpun.

Á fyrri myndinni má sjá misgengið í hægri hluta ganganna. Búið er að fara í gegnum innskotið og má sjá votta af því aftast í þekjunni og er það svart á lit. Á seinni myndinni er horft eftir göngunum þegar búið er að grafa í gegnum misgengið og er búið að merkja með rauðum hringjum þar sem vatnið kemur úr veggjunum, sem afmarkar nokkurn veginn upphaf og endi misgengisins.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA