Var atvinnulaus í tvö ár og ákvað að opna búð

Dýraríkið í Bolungarvík. Myndir á vegg eftir Ru Kota.

Sigrún Guðmundsdóttir er konan á bak við Dýraríkið í Bolungarvík. Það voru margir glaðir þegar það var loksins hægt að kaupa vörur og fóður fyrir gæludýrin á Vestfjörðum en Sigrún vissi af þessari vöntun og ákvað að bæta úr þjónustuskortinum.

„Hugmyndin varð til þannig að ég var búin að sækja um nokkur störf en fékk enga vinnu. Ég hafði verið atvinnulaus í tvö ár og farin að hafa áhyggjur af stöðunni, enda með heimili og tvö börn. Systir mín rekur blómabúð í Reykjavík og er að selja hundamat þar og ég spyr hana einhvernvegin í framhjáhlaupi hvernig ég geti farið að selja dýravörur. Og hún segir mér bara að fara og tala við strákana í Dýraríkinu í Holtagörðum,“ segir Sigrún í samtali við BB.

Næst þegar hún átti leið til Reykjavíkur velti hún fyrir sér að koma við í Dýraríkinu en var hálf efins. Þær efasemdir hurfu þó eins og dögg fyrir sólu þegar þangað var komið því starfsmennirnir höfðu einmitt verið að velta fyrir sér að færa út kvíarnar. Og þá kom Sigrún eins og óskuð og vildi opna útibú í Bolungarvík. „Ég fæ svo vörur hjá þeim og þeir leiðbeina mér áfram. Og svo allt í einu er ég bara komin heim með fullan bíl af dýravörum,“ segir Sigrún og hlær, enda hefur ævintýrið gerst hratt og gengur vel. „Axel í Dýraríkinu í Holtagörðum hefur reynst mér mjög vel,“ segir hún.

Í fyrstu hafði hún hugsað sér að selja vörurnar bara sjálf til einstaklinga og fleirum en bara fólki í Bolungarvík. Hún hófst því einfaldlega handa við að ganga í hús og banka upp á. Fljótlega frétti hún af húsnæði sem var að losna í víkinni og sótti um það hjá bænum. Og fyrr en varði, var hún farin að mála veggi og undirbúa húsnæðið allan daginn og langt fram á nótt. Og opnaði svo Dýraríkið í Bolungarvík. Ru Kota, spænsk vinkona hennar frá Flateyri málaði afskaplega fallegar dýramyndir á veggina í búðinni og þar selur Sigrún vörur fyrir nánast öll dýr nema hesta og kindur.

„Búðin er opin þriðjudaga til laugardaga frá 12-18 núna í sumar. Næsta laugardag langar mig að bjóða upp á veitingar og er svo að skipuleggja fleiri viðburði í sumar og haust. Það er svo margt sem mig langar að gera í tengslum við búðina,“ segir Sigrún spennt og það er alveg á hreinu að margir gleðjast við að geta keypt dýravörur á svæðinu.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA