Vætutíðin hafði almennt ekki teljandi áhrif á dúntínslu

Frá æðarvarpi í Önundarfirði. Mynd: Bernharður Guðmundsson.

Nú er dúntínslu hjá flestum æðarbændum að ljúka og æðarkollurnar farnar af hreiðrum með ungana sína. BB ræddi við nokkra æðabændur á Vestfjörðum.

Úlfar B. Thoroddsen sér um æðavarpið á Bíldudal fyrir konu sína og systkini hennar. Hann segir að varptíðin hafi verið erfiðari suður á Barðaströnd en á öðrum stöðum á Vestfjörðum. Dúntekjan gekk þokkalega í fyrra, en ekki er hægt að segja það sama um þetta sumar. ,,Fuglinn byrjaði að verpa heldur snemma hjá okkur, um mánaðamótin apríl, maí. Þá var norðanátt, kalt og mikil rigning. Fuglinn var að reyna að verpa og verpti um 3 eggjum en reytti svo ekki mikið af sér dúninn. Kuldatíðin sýndi sig í þessu. Kollurnar sem byrjuðu að verpa seinni hlutann í maí, sem voru heldur færri, voru með 4-6 egg og reyttu mikinn dún af sér,’’ segir Úlfar en hann telur að á svæðinu séu um 650-800 hreiður. Úlfar segist einnig hafa tekið eftir yfirgefnum hreiðrum, sem kollurnar hafa hrakist frá vegna kulda og bleytu. Einnig hefur refurinn verið mikið á sveimi. Úlfar segist hafa gert samning við hrafnana á svæðinu um að láta hreiðrin í friði og að þeir hafi staðið við það. Hann segir mávana hafa þó verið aðgangsharðari.

Í Æðey hefur dúntínslan gengið vel, jafnvel betur en í fyrra. Jónas Kristján Jónasson, einn úr fjölskyldunni í Æðey sem sér um varpið segir að þar sé eðlilegt ástand, ekki búið að rigna of mikið. Þar eru 4-5 þúsund hreiður og vanalega fá þau 80-90 kíló af dún eftir tímabilið.

Í Vigur gekk líka ágætlega í sumar. Salvar Baldursson í Vigur segir að varpið hafi verið svipað í ár og í fyrra, en í fyrra voru þó miklir erfiðleikar vegna bleytu. Hann segir að dúntekjan hafi ekki verið neitt sérstök í ár, bara ágæt, en þó betri en í fyrra. Í Vigur eru um 3000-3500 kollur og að meðaltali fæst 50 kíló af dún eftir tímabilið.

Í Önundarfirði hefur líka gengið ágætlega. ,,Dúnninn hefur verið blautur, en maður þarf bara að vera duglegur að þurrka hann. Þetta þýðir að það er bara aðeins meiri vinna en vanalega. Það var gott varp, mörg egg og ungar, svipað gott og í fyrra. Það var mikið af tófu sem við höfum þurft að hafa upp á,’’ segir Sólveg Bessa Magnúsdóttir, æðarbóndi í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði. Þar eru um 2000 hreiður.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA