Undirskriftalistinn á bensínstöðinni hvarf

Þorsteinn Jóhannesson og sendiherra Þýskalands við heiðursverðlauna afhendingu fyrr á þessu ári.

BB fékk símtal frá Ólakaffi fyrir stuttu en höfðingjarnir þar sögðu farir sínar ekki sléttar í undirskriftamálum, en þeir, með Hólmberg Arason í broddi fylkingar, ákváðu að safna undirskriftum til að fá Þorstein Jóhannesson lækni aftur til starfa eins og kom fram á BB í gær. Þannig er að listinn sem þeir skildu eftir á bensínstöð N1 á Ísafirði er horfinn. Starfsfólkið þar verst allra frétta og segist ekki vita hvað varð um blöðin og vaktstjórinn segir að hann hafi varað við að þetta gæti gerst. Áður var undirskriftalisti í Neista fjarlægður og nú er hann aðeins að finna hjá Thai Tawee og í Ólakaffi niður á höfn. Karlarnir í kaffinu harma að þetta hafi gerst enda var listinn nánast orðinn fullur að sögn Begga Ara.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA