Umhverfisvæn Farfuglaheimili á Vestfjörðum tóku þátt í plastpokalausa deginum

Farfuglaheimilið á Broddanesi er með vottun sem Grænt farfuglaheimili. Mynd: Broddanes.

Á Plastpokalausa deginum 3. júlí tóku farfuglaheimilin á Íslandi höndum saman um að vekja athygli gesta á mengun af völdum plasts. Þrjú farfuglaheimili á Vestfjörðum tóku þátt.

Þann dag fengu gestir sem gista á farfuglaheimilunum gefins fjölnota poka úr lífrænni bómull. Með þessu eru gestir hvattir til að afþakka plastpoka á ferðalaginu og vera ábyrgir ferðamenn. Þrjátíu farfuglaheimili, víðsvegar á landinu, tóku þátt í viðburðinum.

Farfuglaheimilið Kirkjuból í Korpudal í Önundarfirði, Farfuglaheimilið Broddanes á Ströndum og Farfuglaheimilið Reykhólar eru farfuglaheimili á Vestfjörðum sem tóku þátt.

Eysteinn Einarsson sem sér um Farfuglaheimilið á Broddanesi segir: ,,Hugmyndin er að gefa gestum okkar fjölnota bómullarpoka til að sporna við plastpokanotkun og hvetja ferðamenn til að huga að umhverfinu á ferðalaginu um Ísland,’’ og bætir við að þau reyni í heildina að vera eins umhverfisvæn og hægt er. ,,Við flokkum allt sorp og þar með talinn lífrænan úrgang. Notum eingöngu umhverfisvottaðar vörur við rekstur farfuglaheimilisins og reynum að lágmarka alla plastnotkun. Einnig fylgjumst við vel með orkunotkun sem og vatnsnotkun. Við erum með vottun sem, ,Grænt Farfuglaheimili“ og uppfyllum því öll þau skilyrði sem þar eru gerð.’’

Farfuglaheimilið á Reykhólum leggur einnig áherslu á að vera umhverfisvænt. Sveinn Borgar sem sér um staðinn segir að þau flokki allt rusl og noti einungis umhverfisvottaðar vörur. ,,Allir matarafgangar fara í sér fötu og sjá svo hænurnar á næsta bæ um að klára þær. Heita vatnið hjá okkur kemur sjálfrennandi úr hver við hliðina á húsinu og við notum það til að hita upp húsið og í heitan pott.’’

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA