Tvær nýjar keppnisgreinar á Hlaupahátíð á Vestfjörðum

Frá Vesturgötuhlaupinu. Mynd: Ágúst G. Atlason.

Um helgina kepptu yfir 500 manns í ýmsum greinum víðsvegar í Ísafjarðarbæ og nágrenni í tengslum við Hlaupahátíð Vestfjarða. Hátíðin hófst á fimmtudeginum, með Skálavíkurhlaupi sem er ný keppnisgrein á hátíðinni. Þar var hægt að keppa í 13 kílómetra hlaupi og hlaupa frá Skálavík og að sundlauginni í Bolungarvík eða 20 kílómetra hlaupi og fara frá Skálavík að sundlauginni en með auka lykkju upp Bolafjall. „Allir keppendur fengu svo frítt í sund og það var opið til miðnættis. Verðlaunaafhendingin var bara á pottasvæðinu í bongóblíðu. Þetta heppnaðist alveg rosalega vel og er sko komið til að vera. Um 40 manns kepptu í þessu sem við teljum mjög gott í algjörlega nýju hlaupi,“ sagði Hildur Elísabet Pétursdóttir, einn skipuleggjenda hátíðarinnar í samtali við BB.

„Helgin gekk svo sannarlega vel. Keppendur voru um 500 og margir sem kepptu í fleiri en einni grein. Við bættum við tveimur nýjum greinum sem mæltust mjög vel fyrir og verða eflaust aftur að ári. Margir af keppundunum voru með fjölskyldurnar með sér. Ég held að við getum alveg áætlað að um 1500 manns hafi komið hingað um helgina í þessum tilgangi“ segir Hildur.

Hún og hinir sem standa að hátíðinni hafa fengið mikið og verðskuldað lof fyrir gott skipulag og margir sem koma ár eftir ár. „Ég veit til þess að fólk sé búið að panta gistingu aftur að ári,“ segir Hildur. Til allrar lukku urðu engin meiðsl á fólki og veðrið var alveg til friðs, eins og hún orðaði það.

Hin nýja keppnisgreinin sem var boðið upp á á Hlaupahátíðinni voru fjallahjólreiðar á sunnudaginn, en þær voru haldnar í samstarfi við Enduro Ísland. „Enduro hjólreiðarnar voru í nýju hjólabrautinni niður Hnífana. Það var uppselt í þá keppni en um 100 manns tóku þátt. Keppendur létu mjög vel af þessari nýju braut og allt gekk að óskum,“ segir Hildur.

Það er enginn vafi á því að Hlaupahátíðin á Vestfjörðum er mikil lyftistöng fyrir samfélögin okkar og gaman þegar fólk gerir sér ferð hingað allsstaðar að á landinu og er ánægt með dvölina hér.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA