Strax orðið fullt á þrjú gönguskíðanámskeið fyrir konur

Gönguskíðaæfing í Tangagötu.

Gönguskíði eru kannski ekki eitthvað sem fólk er að hugsa um nú þegar loksins er komið smá sumar á Vestfjörðum. Nema fólk sé verulega áhugasamt um gönguskíði og búi á Vestfjörðum, þá er það kannski farið að láta sig dreyma um fannhvítar breiður og brjálæðislegt færi. Í það minnsta er Hótel Ísafjörður farinn að auglýsa æfingarhelgar á gönguskíðum fyrir karla sem hefjast í janúar 2019.

„Við vorum með fjórar helgar fyrir konur í fyrra og tvær fyrir blandaða hópa en alls voru þetta um 3-400 manns sem komu til okkar á einhverskonar námskeið á Hótelinu eða í tengslum við Fossavatnsgönguna,“ segir Daníel Jakobsson þegar BB innti hann eftir fréttum af skíðahelgunum.

„Við höfum verið að byggja upp þessar gönguskíðahelgar síðastliðin ár. Við finnum að það er mikil eftirspurn eftir námskeiðum og þess vegna var ákveðið að taka niður bókanir núna strax. Það er nú þegar orðið fullt á þrjár kvennahelgar og sú fjórða er að fyllast hratt. Svo við vonum að strákarnir taki líka við sér og bóki á þessa helgi.Þar fyrir utan er skíðagöngufólk að koma til okkar nánast hverja einustu helgi og svo er Fossavatnsgangan með æfingabúðir þar sem sumir gestanna gista hjá okkur. Þetta eru nær eingöngu Íslendingar og allsstaðar að af landinu,“ segir Daníel.

Æfingahelgin sem Hótel Ísafjörður er farin að auglýsa er bæði fyrir vana gönguskíðamenn og óvana. Þetta er löng helgi, frá fimmtudegi til sunnudags og það er óhætt að segja að gestakoman muni lífga upp á bæinn. Í fyrra brást veðrið skíðafólkinu svo það komst ekki til síns heima á sunnudeginum. Ráðagóðir hótelstjórnendur redduðu því að sjálfsögðu og bæjarbúar fengu að sjá hæfileikaríkar gönguskíðakonur líða skíðandi um götur bæjarins þar sem allt var ófært. Upplifunin hefur eflaust verið ógleymanleg fyrir alla.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA