Stofnaði sjóðinn í minningu foreldra sinna og móðursystur

Sigríður Valdimarsdóttir. Mynd: Morgunblaðið.

Fyrr í mánuðinum sögðum við frá því að Menningarsjóður vestfirskrar æsku styrkti vestfirsk ungmenni til framhaldsnáms sem þau geta ekki stundað í sinni heimabyggð. Tilurð sjóðsins er sú að árið 1966 stofnaði Sigríður Valdimarsdóttir talsímakona þennan sjóð til minningar um foreldra sína Elínu Hannibalsdóttur og Valdimar Jónsson og móðursystur sína Matthildi Hannibalsdóttur. Sigríður var fædd 14.maí 1904 í Fremri Arnardal við Skutulsfjörð. Hún lést á Landspítala 10.nóvember 2001.

Um hana skrifar Haukur Hannibalsson: „Sigríður þótti skarpgreind og stálminnug. Hún ól með sér þann draum á unglingsárunum að komast í skóla og afla sér menntunnar en eftir andlát föður hennar varð hún að hætta menntaskólagöngu sinni á Akureyri eftir þrjá vetur. Þá fór hún að vinna hjá Pósti og síma þar sem hún vann alla sína starfsævi, fyrst sem símastúlka á Ísafirði og síðar í Reykjavík.“

„Sigríður hélt samt alltaf tryggð við Vestfirði og var formaður Vestfirðingafélagsins í 28 ár. Menntaþrá hennar og vitund hennar um það hvaða gildi nám hefur fyrir alla átti eftir að koma betur í ljós þegar hún stofnaði Menningarsjóð Vestfirskrar æsku en þá voru liðin 100 ár frá fæðingu foreldra hennar. Hlutverk sjóðsins var og er að styrkja þá unglinga í framhaldsnám sem eiga við erfið kjör að búa.“

Allt síðan árið 1967 hafa 3-5 ungmenni af Vestfjarðakjálkanum hlotið styrki úr sjóðnum til að fara í allskonar nám, bæði verk- og bóknám. „Hann er því orðinn stór barnahópurinn hennar Sigríðar þó sjálf hafi hún ekki átt afkomendur,“ skrifar Haukur.

Þeir sem hafa forgang um styrk úr sjóðnum eru ungmenni sem hafa misst móður eða föður, einstæðar mæður og konur á meðan að fullt launajafnrétti er ekki í raun. Í lýsingu á sjóðnum segir jafnframt að ef engar umsóknir koma frá Vestfjörðum þá koma umsóknir frá Vestfirðingum búsettum annars staðar til greina. Nánari lýsingu má sjá í fyrri frétt hérna.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA