Starfsmenn Arnarlax fundu göt á kví í Tálknafirði

Frá Tálknafirði.

Arnarlax sendi tilkynningu frá sér klukkan níu í morgun þess efnis að þegar starfsmenn Arnarlax voru við reglubundið eftirlit við sjókvíar í Tálknafirði urðu þeir varir við göt á netpoka. Sérhæfðir kafarar komu á svæðið skömmu síðar og við nánari skoðun komu í ljós tvö göt á kvínni. Annað gatið var 100*50 cm og hitt 100*70 cm.

Atvikið var tilkynnt til Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Fiskistofu um leið og götin á kvínni komu í ljós. Strax voru viðbragðsáætlanir virkjaðar og farið í viðeigandi aðgerðir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fiskur slyppi úr kvínni og reknet voru lögð út við kvínna.

Allar aðgerðir vegna atviksins eru unnar í samráði við Matvælastofnun og Fiskistofu.
Búið er að kafa í aðrar kvíar á svæðinu og reyndust þær í lagi og er því um einangrað atvik að ræða. Ekki er vitað hvað orsakaði götin en töluverð vinna hefur verið við þessa tilteknu kví sem hugsanlega gæti orsakað atvikið.

Fiskurinn í kvínni er fremur stór og er meðalþyngd hans um 3,5 kg. Enn liggur ekki fyrir hversu margir fiskar hafa sloppið.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA