Sjaldan dauð stund í stuðinu í Bolungarvík

Frá markaðshelginni í Bolungarvík.

Það er mikill kraftur í Bolvíkingum í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Dagana 5.-7. júlí var markaðshelgin haldin í víkinni og fjöldi manns lögðu þangað leið sína. Þar gátu gestir og heimamenn brugðið sér á söfn og í sund, farið á böll í Einarshúsinu, horft á Sirkus og ýmsa tónleika og krakkarnir gátu farið á hestbak, í tunnulest eða hoppað og skoppað í þar til gerðum köstulum. Einnig var boðið upp á Mýrarbolta fyrir börnin sem vakti mikla lukku.

Ekki nenntu Bolvíkingar að hvíla lúin bein lengi eftir þessa miklu hátíðarhelgi heldur fóru þeir á stúf á miðvikudaginn og rifu og tættu niður allan þann kerfil sem fyrir þeim varð. Hulda Birna Albertsdóttir sem starfar hjá Náttúrustofu Vestfjarða sagði í samtali við BB að mætingin hafi verið mjög góð og fólk hafi slegið, stungið og rifið niður alla plöntuna. Kerfillinn er ekki enn farinn að bera fræ svo þetta er ráð í tíma tekið. íbúar Bolungarvíkur hafi einnig verið duglegir að hreinsa til í nágrenni sínu upp á síðkastið sagði Hulda. Þetta væri þó líklega margra ára verkefni sagði hún en ef fólk héldi áfram með þennan metnað ætti vel að vera gerlegt að ráða við kerfilinn.

Hluti hópsins sem sagði kerflinum stríð á hendur. Mynd: Hulda Birna Albertsdóttir.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA