Reyna að bregðast við manneklu á Sólborg með því að bjóða upp á fríðindi

Frá leikskólanum Sólborg á Ísafirði.

Leikskólastjóri Sólborgar á Ísafirði segir að bregðast þurfi við manneklu og leggur til að bætt verði við fríðindi starfsfólks.

Mikið hefur verið auglýst eftir leikskólakennurum, bæði á vef Ísafjarðarbæjar og í Fréttablaðinu og hefur leitin ekki enn skilað neinum árangri. Ekki er búið að manna allar stöður leikskólans fyrir næsta vetur og ef það tekst ekki gæti leikskólastjóri þurft að hafa samband við foreldra yngstu barnanna til að greina þeim frá að sú staða gæti komið upp í haust að börn þeirra fái ekki pláss.

Margrét Halldórsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs og Baldur Ingi Jónasson mannauðsstjóri lögðu fram minnisblað til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar með hugmynd frá leikskólastjóra um að bæta fríðindi starfsfólks leikskóla í Ísafjarðarbæ og auglýsa með starfsauglýsingunni, þau fríðindi að bjóða starfsmönnum leikskóla Ísafjarðarbæjar forgang að leikskólaplássum og afslátt af vistunargjöldum.

Bæjarráð samþykkti að boðið yrði upp á forgang að leikskólaplássi og að auglýst verði eftir starfsmönnum í leikskólann Sólborg þar sem bent er á þau fríðindi sem fylgja starfinu. Bæjarráð heimilaði ekki að bjóða starfsfólki afslátt af vistunargjöldum.

Margrét Halldórsdóttir sviðsstjóri Skóla- og tómstundasviðs segir að líklegast verði skipuð nefnd þar sem skipulag starfs leikskólakennara verði endurskoðað í heild sinni.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA