Mýrarboltinn í Bolungarvík næstu helgi

Það er gaman í drullunni á Mýrarboltanum! Mynd: Sigurjón Sigurðsson.

Skráningar fyrir lið í Mýrarboltann fer fram þessa dagana, en mótið fer fram næstu helgi í Bolungarvík. Jóhann Bæring Gunnarsson, mótshaldari og drullusokkur að eigin sögn, sagði blaðamanni BB að skráningar hafi farið hægt af stað en það hafi lifnað yfir því síðustu vikuna. “Við erum núna á öðru ári í Bolungarvík sem er hentugri staður fyrir mótshaldið bæði fyrir gesti og mótið. Eftir að við fluttum hefur þó vantað svona harðkjarna heimalið, lið sem voru ár eftir ár en duttu út í fyrra þegar við fluttum. En við höfum fengið margar fyrirspurnir undanfarna viku og gerum okkur vonir um að það lifni yfir þessu áður en mótið hefst. Það var fækkun í fyrra og við renndum blint í sjóinn með þetta en framkvæmdalega séð er þetta miklu hentrugri staður upp á aðgengi gesta og bíla. Þetta var inni í Tunguskógi og það þurfti svo mikið mannahald í umferðastjórnun og annað og nú erum við lausir við það og þurfum heldur ekki að útvega sturtur því sundlaugin er þarna við hliðiná. Þetta er haldið núna á algjöru snilldarsvæði því það er allt til alls. Vellirnir verða þrusugóðir, voru þurrir í fyrra en verða geggjaðir í ár, enda búið að vera blautt með eindæmum í sumar hjá okkur. Við prufukeyrðum þá á barnamóti í júlí.“ segir Jóhann.

Mótið hefst með skráningarkvöldi í Einarshúsi á föstudaginn, keppendur geta sótt keppnisgögn og armbönd og slíkt. Stefnt er á að flauta til leiks svo klukkan 12:00 á laugardaginn. „Vonandi getum við spilað til úrslita þann daginn. Það er betra að keyra þetta allt á einum degi, sumum líkar verr að fara aftur í drulluna á öðrum degi, þannig að menn hafa tekið því rólega og farið í sund á sunnudaginn og svo er lokahóf á sunnudagskvöldinu og ball þar á eftir. Það verða hörkulistamenn á svæðinu þannig að þetta lítur vel út. Það er ágætis spá fyrir helgina þannig að þetta verður drullugaman!“ segir Jóhann Bæring að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA