Meira líf í Gömlu Verbúðinni á Patreksfirði

Einar er ánægður að vera kominn með vinnuaðstöðu í verbúðinni og mun bralla ýmislegt þar á næstu misserum. Mynd: Julie Gasiglia

Einar Skarphéðinsson, smíðakennari frá Patreksfirði hefur nýlega komið sér upp vinnustofu fyrir smíðavinnu sína í Gömlu Verbúðinni á Patreksfirði og er staðsettur þar við hliðina á Húsinu-Creative Space sem opnaði í sömu byggingu í mars síðastliðnum. Það er nóg að gera hjá Einari, en hann hefur kennt smíði í yfir 16 ár, svo býr hann til ýmislegt handverk í frítíma sínum ásamt því að halda smíðanámskeið fyrir kennara grunnskólans í bænum einu sinni í viku. Einar hefur haft vinnuaðstöðu í bílskúr sínum en blaðamaður BB var forvitinn um hvernig þessi flutningur í verbúðina kom til. „Þetta kom fyrst og fremst til því ég hef lengi verið í handverki og hef verið svolítið einn í því í skúrnum heima og mig langar að vera sýnilegri. Ég var nú reyndar með aðstöðu í þessu húsi, verbúðinni fyrir 20 árum. En svo byrjuðu krakkarnir sem eru með Húsið-Creative Space hér í við hliðina og það kveikti í mér að það væri kannski að koma líf í húsið og fleiri kæmu kannski í kjölfarið. Mig langar mikið að sjá fleiri koma hingað með starfsemi sína í þessa byggingu, þetta húsnæði býður upp á mjög marga möguleika, ekki síst rýmið hér undir risinu.“ segir Einar.

Slaufurnar sem Einar smíðar úr við hafa vakið mikla lukku og seljast eins og heitar lummur. Auk þess býr hann til klukkur og penna úr tré. Einar er nýfluttur með aðstöðu sína í verbúðina sem er meira en bara vinnustofa, því það má segja að þar sé ákveðin félagsmiðstöð einnig. „Já fólk er nú þegar farið að kíkja heilmikið inn til mín að skoða og sjá hvað eru um að vera. Ég var að kaupa þrívíddar fræsara til að gera meira og ein hugmyndin er sú þegar fram í sækir að leyfa fólki að gera hluti sjálft hérna með minni aðstoð, lagfæra hluti og annað. Svo er aldrei að vita að ég fari að vera með námskeið fyrir fólk hér í verbúðinni, svipað og það sem ég hef verið að gera fyrir kennarana í skólanum. Það hafa margir utan kennarahópsins sýnt því áhuga og viljað vera með og það er því aldrei að vita.“ segir Einar.

Einar er fæddur og uppalinn á Patreksfirði og segir að framtíð Vestfjarða sé björt þrátt fyrir svartsýnisspár sem hafa verið opinberaðar nýlega. „Ég held að Vestfirðir eigi eftir að eflast, kannski ekki eins mikið í sjávarútvegi eins og verið hefur, en ferðaiðnaður og léttur iðnaður á eftir að blómstra hér, engin spurning, þannig að framtíðin er björt hér!“ segir Einar að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA