Markaðshelgin haldin hátíðleg í Bolungarvík

Það verður mikið stuð í Bolungarvík um helgina.

Markaðshelgin er fjölskylduhátíð sem haldin er þessa dagana í Bolungarvík. Hátíðin hófst fimmtudaginn 5. júlí og stendur fram á sunnudag en markaðsdagurinn sjálfur er laugardagurinn 7. júlí. Boðið verður upp á markaðstorg, leiklistar- og tónlistaratriði og leiktæki fyrir krakka á öllum aldri.

Á föstudagskvöldinu verður skrúðganga í bænum klukkan 20:00 og eftir það verður Brekkusöngur og svo mun Gummi stíga á stokk í Einarshúsi. Klukkan 13:00 á laugardeginum hefst svokallað markaðstorg. Þar verður hægt að gæða sér á kræsingum og fjölmargir söluaðilar munu selja ýmsan varning. Opið verður í Sjóminjasafninu Ósvör og Náttúrugripasafni Bolungarvíkur og hægt er að kaupa miða sem gildir í bæði söfnin, opið verður einnig á sunnudeginum í þeim söfnum.

Einnig verður boðið upp á krakkafjör þar sem verða hoppukastalar og tunnulest, en tunnulestin var smíðuð í vetur í grunndeild málmiðna við Menntaskólann á Ísafirði af nemendum. Hún var gangsett á sjómannadaginn og hefur reynst afar vinsæl hjá ungu kynslóðinni. Svo verður krakkaball um kvöldið og mun Made-In-Sveitin spila fyrir gesti þess.

Margir tónlistarmenn munu stíga á stokk á markaðsdeginum og verður boðið upp á Vestfirskt dragspil auk þess sem Between Mountains munu stíga á stokk. Fjölbreytt skemmtiatriði verða einnig á dagskrá og munu Hans og Grétar koma frá Sirkus Íslands en Sirkus Íslands hefur verið starfræktur síðan 2007 og samanstendur af fjölbreyttum hópi hæfileikaríks fólks á ýmsum sviðum sirku-slista sem hafa sameinað krafta sína. Fleiri skemmtiatriði verða í boði því leikritið Karíus og Baktus verður sett upp. Það er leikhópurinn Vinir sem gefur þeim félögum nýtt líf á fjörugan hátt og sýnir í fyrsta sinn á Vestfjörðum. Að auki verður Einars leikur Guðfinnssonar settur upp í Einarshúsi og hefst fyrri sýningin klukkan 16:00 og sú síðari klukkan 17:00.

Dagskrá laugardagsins lýkur svo með markaðsdansleik þar sem hljómsveitin Made-in-Sveitin mun spila vel fram á sunnudagsmorgunn. Það verður því augljóslega margt í boði á Markaðshelginni og um að gera að gera sér ferð til Bolungarvíkur.

Aron
aron@aron@bb.is

DEILA