Langar að gefa út Aldarfar og örnefni í Önundarfirði

Eyþór Jóvinsson í bókabúðinni á Flateyri.

Óskar Einarsson gaf út bók árið 1951 sem heitir Aldarfar og örnefni í Önundarfirði. Bókin er nú nánast ófáanleg enda var hún aðeins gefin út í 400 eintökum á sínum tíma. Fjölmargir hafa þó lýst yfir áhuga á að eignast bókina og þess vegna hefur Eyþór Jóvinsson sem rekur gömlu bókabúðina á Flateyri ákveðið að reyna að gefa bókina út aftur. En af hverju?

„Það er eiginlega tvennt sem orsakar það,“ segir Eyþór. „Í fyrsta lagi er mikill áhugi á bókinni hér á svæðinu og ég hef sjálfur gaman af öllum gömlum heimildum um fjörðinn; um menn og dýr og málefni. Svo hef ég bara fundið það hérna í bókabúðinni að það eru margir sem gráta það að eiga ekki eintak eða hafa glatað eintaki. Og þau eru bara ekki í boði í dag þannig að ég er að kanna hvort það sé ekki áhugi fyrir endurútgáfu á þessari bók. Enda þykir hún vera hálfgerð biblía okkar Önfirðinga,“ segir Eyþór og flissar aðeins.

Hann fékk leyfi hjá dóttur Óskars til að gefa bókina út og bókaútgáfan Forlagið hefur gefið honum eftir útgáfuréttinn án endurgjalds. Auk þessa fékk Eyþór 100 þúsund krónur í styrk síðastliðið haust frá Atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar. „Ég er búin að kanna einu sinni á Facebook hvaða áhuga fólk hefur og það eru margir jákvæðir þannig að ég er að reyna að safna upp í útgáfukostnað,“ segir Eyþór. „Þetta er frekar dýr útgáfa í sjálfu sér. Það þarf að skanna alla bókina og viðbætur, prenta og slíkt, og þetta er lítið upplag svo hvert eintak er dýrt. Markaðurinn er líka takmarkaður,“ bætir hann við og hlær hátt, enda er Önundarfjörður kannski ekki svo fjölmennur þó mörgum finnist hann vera það í anda.

Eyþór sagði jafnframt í samtali við BB að í nýju útgáfunni af Aldarfar og örnefni yrðu viðaukar sem var sleppt í þeirri fyrstu. Þegar hún var gefin út árið 1951 voru lítil fjárráð til bókaútgáfu en til þess að bókin kæmist samt í prent var ákveðið að sleppa 20 blaðsíðna örnefnaskrá og varðveita hana frekar á Þjóðskjalasafni. Þegar Eyþór fór á stúfana að grafa þessa skrá upp, fundust viðbætur sem Óskar hafði gert nokkrum árum eftir útgáfu bókarinnar svo þær verða einnig með í útgáfu Eyþórs. „Viðbætur sem hafa aldrei komið fyrir sjónir almennings áður,“ segir hann og bætir bjartsýnn við: „Ég þarf allavega að selja 100 bækur í forsölu til að komast af stað, það er svona helmingur af kostnaðinum ef ég set ekki laun á mig. En við látum þetta ganga.“

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA