Kvikmynd um Óshlíðina byggð á sögum frá fólki á svæðinu

Sarah Thomas og Jonny Randall eru breskir kvikmyndaframleiðendur sem gerðu nýlega kvikmynd um Óshlíðina.

Sarah átti heima í Hnífsdal og hefur verið að koma til Íslands af og til frá árinu 2008 svo hún man vel eftir að hafa keyrt Óshlíðina þegar hlíðin var ökufær. Einnig hjólaði hún og gekk veginn og fannst umhverfið heillandi. Hún fluttist til Bretlands árið 2013 en hélt áfram að koma til Hnífsdals og starfaði þá sem leiðsögumaður. Árið 2015 sá hún að Óshlíð var að brotna hratt niður og ljóst var að ekki væri hægt að keyra hana mikið lengur. Í millitíðinni hitti hún Jonny og ákváðu þau að gera mynd um Óshlíðina og stakk hún upp á að þau myndu keyra veginn á bíl og mynda leiðina. Henni fannst áhugavert að sjá hvað gerist þegar mennirnir láta hluti eins og Óshlíðina ósnerta.

Kvikmyndin byggir meðal annars á sögum frá fólki á svæðinu. ,,Við bjuggumst ekki við þessum fjölda af fólki sem vildi segja okkur sögur um veginn og ekki heldur hversu ólík sambönd fólk átti við Óshlíðina. Hver manneskja sem við tókum viðtal við sagði okkur einnig frá einhverjum öðrum sem við yrðum að tala líka við,’’ segir Sarah.
Sarah og Jonny tók upp myndina á aðeins fjórum dögum. ,,Fjórir dagar, með viðtölum, upptökum og einnig settum við saman lítinn kór til að syngja inni í einum af vegskálunum,’’ segir Sarah.

,,Við byrjuðum ferðalagið hjá Vegagerðinni þar sem við ræddum við Geir Sigurðsson, sem benti okkur á Jón Reyni Sigurvinsson jarðfræðing. Ég þekki til bóndasonarins á Ósi, Jóhanns Ólafs Högnasonar og svo var okkur bent á æðislega brjálaðan gaur, Elvar Kristinn Sigurgeirsson sem á það til að hreinsa veginn á Óshlíðinni og heldur áfram einfaldlega vegna þess að honum líkar það,’’ segir Sarah.

Eitt kvöldið fóru þau svo að hitta vinkonu Söruh, Önnsku (Anna Sigríður Ólafsdóttir) og frænka hennar Ragnheiður Arnarsdóttir var þar líka. Þær höfðu báðar misst vin á Óshlíðinni þegar þær voru unglingar. Ragnheiður var svo valin til þess að vera röddin sem talar í myndinni. Eftir að þau fóru heim var þeim bent á Gumma Rós í Bolungarvík, sem hafði lifað af þegar skriða féll á bíl hans og Lilju konu hans á Óshlíðinni og talaði hann um það eins og það hefði gerst í gær. Þau heiðurshjón eru nú bæði látin.

Myndin verður sýnd þann 22. júlí í vegskálanum við Seljadalsófæru. Sarah hvetur fólk til þess að koma gangandi eða á hjóli. Ef fólk vill koma á bíl, þá biður hún það vinsamlegast að leggja ekki fyrir utan göngin.

Myndin verður sýnd á eftirfarandi stöðum:
22. Júlí kl. 20 í vegskálanum við Seljadalsófæru
23. júlí kl. 20 í Edinborgarsalnum
4. ágúst (tími óákveðinnI) í Norræna Húsinu í Reykjavík.
Einnig verður hægt að kaupa eintak af myndinni á DVD (aðeins peningar).

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA