Hver á þetta hús?

Það er margt skrýtið á Flateyri. Og sumt jafnvel stórfurðulegt. En lífið væri lítið skemmtilegt ef það væri ekki eitthvað óvænt til að lífga upp á það öðru hvoru. Eitt af þessu skrýtna og skemmtilega sem prýðir hversdagsleikann á eyrinni núna er þetta hús sem sést hérna á myndinni að ofan. Það stendur á flötinni fyrir neðan björgunarsveitahúsið, fyrir ofan fiskvinnsluna hans Togga og gegnt Bryggjukaffi. Eftir því sem flestir héldu þá var þetta skothús í eigu einnar refaskyttunnar á svæðinu. Þegar brúðkaup Ingileifar og Maríu Rutar var haldið á Flateyri um daginn fékk skothúsið nýtt hlutverk sem pylsusala. Sagan hermir að sú sala hafi gengið svo vel og svo gífurlega góður rómur gerður að pulsunum að enn megi kaupa þessi sérstöku pulsubrauð á góðum prís á hverfameistaranum Ívari Kristjánssyni.

 

En eftir brúðkaupið var húsið allt í einu komið á nýjan stað. Og með nýjum áletrunum. Einhverjir halda því fram að björgunarsveitafólkið hafi útbúið þarna aðstöðu fyrir eftirpartýin þegar Vagninn lokar, en skriplast aðeins á skötunni þegar kom að erlendum þýðingum. Enda fátt af því fólki Lýðháskólagengið.

Aðrir vilja meina að þetta sé hluti af sama gjörningi og á sér stað niðri á Odda, þar sem appelsínugular frístandandi stikur leiða veginn sikk sakk um götuna og trépinnum er stungið niður í jörðina svona hist og her um malarveginn. Hvað sem því líður þá er allt í einu komin ný áletrun á skúrinn. Bið en. Varð einhver eftir þarna í partýi og bíður enn? Eða er búið að færa kirkjuna þar sem hin er svo illa máluð? Það verður spennandi að vita hvað þetta er, ef hið sanna kemur einhverntíman í ljós.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA