Hvatastöðin verður sjálfseflingarmiðstöð fyrir fólkið og samfélagið

Esther Ösp er jógakennari ásamt mörgu öðru og hefur unnið mikið með ungu fólki í allskonar störfum.

Henni Esther Ösp Valdimarsdóttur á Hólmavík er margt til lista lagt og fátt sem hún getur ekki framkvæmt ef hún ætlar sér það. Nú hefur hún stofnað Hvatastöðina, sem er sjálfseflingarmiðstöð með það að markmiði að finna fjölbreyttar og spennandi leiðir til að einstaklingar, hópar og jafnvel samfélög geti byggt sig upp á jákvæðan hátt.

Þetta er ekki lítið markmið sem Esther setur sér með Hvatastöðinni. En hún hefur víðtæka reynslu af því að vinna með ungu fólki í allskonar störfum, er mannfræðingur, kennari og jógakennari að mennt, hefur komið að allskonar verkefnum á Ströndum og annarsstaðar svo þetta verkefni ætti ekki að vefjast fyrir henni.

„Ég hef viðað að mér fjölbreyttri reynslu og þekkingu í námi, starfi og námskeiðum, bæði hér heima og erlendis og mig langar að leyfa öðrum að njóta góðs af,“ sagði Esther í samtali við BB. „Til að byrja með munum við einbeita okkur að fjölbreyttri jógaiðkun og vera utandyra fyrst um sinn. Svo vonandi finnst fjármagn til að skapa innanhúsaðstöðu og þá er gert ráð fyrir að halda námskeið en með haustinu. Hvað framtíðin ber í skauti sér verður svo bara að ráðast, það er allt opið svo lengi sem það gerir fólkinu og samfélaginu til góða,“ segir þessi kraftmikla kona að lokum.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA