Hjallastefnan ekki áfram í Tálknafjarðarskóla

Tálknafjörður. Mynd: Julie Gasiglia.

Forsvarsmenn Hjallastefnunnar leggja til við nýja sveitarstjórn Tálknafjarðar að færa samvinnu sína yfir á næsta stig. Það gildir um sameinaðan Tálknafjarðarskóla, þ.e. leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. Ástæða fyrir þessari tillögu er að sögn Margrétar Pálu Ólafsdóttir, höfundi Hjallastefnunnar, að börnum hefur fækkað í sveitarfélaginu síðastliðin ár en aðrir þættir spila einnig inn í. „Við vildum núna með nýrri sveitarstjórn skoða hvað væri best að gera varðandi stöðuna. Það er kominn nýr skólastjóri og þessa dagana er ný sveitarstjórn, sem er rétt tekin til starfa, að skoða hvernig best væri að koma málum fyrir og erum við þátttakendur í þeirri stefnumótun. Eins og staðan er í dag þá tel ég að eftir alla þá uppbyggingu sem búin er að eiga sér stað við skólann þá væri æskilegt að sveitarstjórnin tæki aftur við rekstrinum með okkur sem ráðgjafa og bakstuðning.“ segir Margrét Pála í samtali við BB.

Nýverið var vinnu við mat á starfi Tálknafjarðarskóla lokið og fékk skólinn góða úttekt hvað varðar námsárangur, nemendalýðræði og getu nemenda til að hafa áhrif á eigið nám. Að sögn Margrétar Pálu þá er nauðsynegt að hafa hreyfanleika er kemur að skólakerfinu og passa að hafa ekki allt í kassa sem hnýtt er endanlega fyrir. „Við höfum átt góða samvinnu við íbúa og þá sem stýrt hafa sveitarfélaginu á þessum tíma. Þetta er búið að vera stórkostlegt ævintýri og gleðilegt fyrir Hjallastefnuna að kynnast þessu litla samfélagi. Og mesta gleðin er að nú liggur fyrir samkvæmt nýjum lögum og reglugerðum um skólastigið að sveitarfélög hafa fullan rétt á að leita til aðila eins og okkar ef þú telja þörf á. Það mun hjálpa öllum að vera með meiri sveigjanleika í skólakerfinu.“ segir Margrét Pála að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA