Hefur unnið í 30 ár hjá Orkubúinu

Kristján Einarsson er líka öflug refaskytta.

Fyrir nokkrum árum þegar það var þó nokkuð títt að rafmagnið hyrfi í nokkra klukkutíma af Flateyri var betra að muna eftir því að ganga á gangstéttunum en ekki götunni, til að vera ekki fyrir honum Kidda Valda sem brunaði á öðru dekkinu niður í Orkusbúið til að slá rafmagninu inn aftur. Nú eru þeir tímar að mestu liðnir enda sjálfvirknin orðin mikil í rafmagnsmálunum og varaaflsstöðin í Bolungarvík er oftast fljót að slá inn. En Kiddi Valdi, eða Kristján Einarsson eins og hann heitir, náði þeim áfanga á dögunum að hafa starfað í 30 ár hjá Orkubúi Vestfjarða. Það hafa margir unnið þar lengur segir hann því vinnustaðurinn er góður. En þó mæðir kannski meira á yngri mönnunum í vinnuflokknum nú orðið.

Kiddi Valdi byrjaði að vinna hjá Orkubúinu þann 18. júlí 1988. Á þessum tíma hafa orðið gríðarlegar breytingar segir hann í samtali við BB, sjálfvirknin er orðin mikil, komin miklu meiri tækni og línur í jörð. „Ég var ráðinn umsjónarmaður Orkubúsins í Önundarfirði þann 1. maí 1991. Við vorum þrír þegar ég byrjaði, ég, Rögnvaldur Guðmundsson og Palli Ásgeirs. Síðan er ekkert ráðið þegar þeir hætta, Palli vegna aldurs og Rögnvaldur flytur í burtu. En ég gegndi þessu starfi þangað til orkulögin breyttust og göngin komu. Þá var vinnuflokkurinn sameinaður og nú er ég titlaður flokksstjóri á svæði 1 sem er Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavík,“ segir Kiddi Valdi.

„Þegar rafmagnið fór hér áður þá þurfti ég alltaf að fara inn í Breiðadal því það var öllu handstýrt þar. Í hvaða veðrum sem var og ef það var snjóflóða hætta á Ströndinni (sem er vegurinn að Flateyri) þá varð ég að fá bát með mig inn í Holt. Erfiðasti tíminn í starfinu var frá 1991 til 1996. Þá voru verstu veðrin, harðir vetur og mikill snjór. Alltaf eitthvað að slitna niður,“ segir Kiddi. Hann segir margt vera minnisstætt eftir þessi 30 ár. Það að fá varðskip til að sigla með sig yfir í Valþjófsdal til að koma rafmagni út á Ingjaldssand, því þá var ekki óhætt að keyra undir fjallið Þorfinn vegna snjóflóðahættu. Eða hreinlega ófært þar undir. Og svo ótal bátsferðir með hinum ýmsu fleyjum inn í Holt til að gera við sveitalínurnar.

„En erfiðasti tíminn var eftir snjóflóð og allt í kringum það,“ segir Kiddi Valdi. „Uppbygging á spennustöðinni og allt atið. Það hrundi svo mikið í því veðri sem gerði þá. Spennistöðin í Bótinni (ofarlega á Flateyri) fór alveg og efri hlutinn af eyrinni var rafmagnslaus í nokkra daga út af því. Það var ekki hægt að keyra rafmagn frá vélunum niður frá hérna uppeftir og línan á Ströndinni var brotin. Þetta veður og veðrið í janúar 1995, þegar Súðavíkurslysið varð, þetta eru svona verstu veður sem ég man eftir.“

Kiddi Valdi hefur glímt við erfið veikindi undanfarin ár en alltaf náð að rífa sig upp og halda aftur til starfa hjá Orkubúinu. Það er fróðlegt að hlusta á hann segja sögur af vinnuferðum og krefjandi vinnudögum og líklegt að vinnufélagar hans lumi einnig á áhugaverðum sögum og staðreyndum úr starfinu í áranna rás.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA