Grunnskólinn á Tálknafirði færist yfir til sveitarfélagsins.

Grunnskólinn á Tálknafirði. Mynd: Tálknafjörður.is

Á síðu E-listans á Tálknafirði, sem er í minnihluta eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar, má lesa þær fréttir að búið sé að ráða nýjan skólastjóra, Sigurð Örn Leósson. Sigurður ku vera fluttur vestur ásamt konu sinni sem mun kenna við grunnskólann næsta vetur.

Hingað til hefur Margrét Pála, forsvarskona Hjallastefnunnar verið skólastjóri á Tálknafirði, enda hefur skólinn verið rekinn undir merkjum þeirrar stefnu. Nú virðist þó vera breyting á, þar sem oddviti bæði minni- og meirihluta í Tálknafirði, ásamt sveitarstjóra hafa hitt Margréti Pálu til að ræða við hana um flutning Tálknafjarðarskóla yfir til sveitarfélagsins.

Margrét Pála hefur boðið fram aðstoð sína til að auðvelda flutningana, svo sem að reka skólann í ár í viðbót og sjá um launagreiðslur og rekstur til að gera tilfærsluna sem auðveldasta fyrir alla. Samkvæmt fréttunum frá E-listanum vildi oddviti Ó-listans sem er í meirihluta, Bjarnveig Guðbrandsdóttir, ræða við sitt fólk áður en ákvarðanir væru teknar. E-listinn hvetur foreldra til að ræða þessi mál við meirihlutann og koma með ábendingar og tillögur um hvað þau sjá æskilegast í stöðunni og hafa þannig áhrif á umræðu og ákvarðanatöku áður en lokaákvörðun er tekin.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA