Birna Filippía var valinn knapi mótsins

Birna Filippía Steinarsdóttir með hluta af verðlaunum sínum. Mynd: Margrét Jómundsdóttir.

Hestamannamót Storms var haldið á Þingeyri síðastliðna helgi og fór afar vel fram að sögn Margrétar Jómundsdóttir, ritara félagsins.

Vel var mætt á tölt- og skeiðkeppni í höllinni á föstudagskvölið. Í töltkeppni 20 ára og yngri vakti ungur knapi athygli áhorfenda enda aðeins 8 ára. Hann landaði öðru sæti í keppninni og á framtíðina fyrir sér. Knapi mótsins var valin Birna Filippía Steinarsdóttir. Hún náði settu markmiði sínu fyrir mótið, en það var að ná að sigra alla sína flokka. Hún er vel að árangri sínum komin enda leggur hún mikla vinnu í æfingar við að bæta sig sem knapa og sem hestakonu.

Hestur mótsins var valinn Vinur frá Laugabóli. Keppni í Sandariddaranum var hin mesta skemmtun fyrir alla er á horfðu að sögn Margrétar. Laugardagurinn rann svo upp með þokusúld og bleytu. Hestar og menn létu það ekki á sig fá og skunduðu í fánareið. Eftir hana var mótið sett og keppni hófst og rættist heldur úr veðrinu er leið á daginn.

Úrslit fóru þannig að í Barnaflokki var Guðrún Ólafía Marinósdóttir á Frey frá Miðbæ í 1. sæti með 8,10 í einkunn. Eyrún María Kristjánsdóttir á Keili frá Þingeyrum var í 2. sæti með 8,07. Og í 3. sæti var Jón Guðni Guðmundsson á Frosta frá Miðsitju með 7,53 í einkunn.

Í unglingaflokki sigraði Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir á Heru frá Akranesi með 7,48 í einkunn og í ungmennaflokki sigraði Birna Filippía Steinarsdóttir á Kolskeggi frá Laugabóli með 8,34. Ólöf Einarsdóttir á Stefnu frá Dalbæ var í 2. sæti með 8,08 og Rakel María BJörnsdóttir á Mána frá Þórustöðum var í 3. sæti með 8,00 í einkunn.

Í tölti hjá eldri kynslóðinni sigraði Birna Filippía Steinarsdóttir á Skutlu frá Vatni með 8,90 í einkunn. Sigmundur Þorkelsson á Spörtu frá Laugarvatni var í 2. sæti með 8,55 og S. Valdimar Elíasson var í 3. sæti á Rökkva frá Miðbæ með 8,40.

Í tölti yngri var Ólöf Einarsdóttir í 1. sæti á Stefnu frá Dalbæ með 8,40, þá kom Einar Jóhann Elvarsson á Láka (Glaðning) frá Skáney með 8,20 og Hugrún Embla Sigmundsdóttir á Dúnu frá Þúfum var í 3. sæti með 8,10.

Birna Filippía Steinarsdóttir sigraði B flokkinn líka á Skutlu frá Vatni með 8,44 í einkunn. Í 2. sæti var Jón Guðni Guðmundsson á Sagnaranda frá Dýrfinnustöðum með 8,41 og í 3. sæti var Guðmundur Bjarni Jónsson á Goða frá Dýrfinnustöðum með 8,15.

Birna Filippía Steinarsdóttir sigraði einnig A flokkinn en þá á Vini frá Laugabóli og með 8,63 í einkunn. Sigmundur Þorkelsson á Spörtu frá Laugarvatni var í 2. sæti með 8,54 og Sigurjón Hákon Kristjánsson á Haukdal frá Miðbæ var í 3. sæti með 8,08.

Þátttakendur í Púkaflokk voru:

Gunnar Páll/Haukdal frá Miðbæ.
Helga María/Freyr frá Miðbæ.
Einar/Láki frá Skáney.
Mikael Leon/Elja frá Þingeyri.
Aníta Rán/Snúður frá Þingeyri
Auður/Birta frá Miðbæ.
Ragnheiður/Dásemd frá Þórustöðum.
Aþena/Perla frá Þórustöðum.

Sigurgöngu Birnu Filippíu Steinarsdóttur var alls ekki lokið því hún sigraði líka í fljúgandi skeiði á Vini frá Laugabóli. Í 2. sæti var Sigurjón Hákon Þorsteinsson á Haukdal frá Miðbæ og í 3. sæti var Sigþór Valdimar Elíasson á Rökkva frá Miðbæ.

Að lokinni keppni sleit formaður mótinu formlega og gaf tímasetningu fyrir hinn víðfræga reiðtúr út í Meðaldal. Þegar loks var haldið af stað voru samankomnir 52 hestamenn og konur er fylktu liði og nutu lífsins. Eftir reiðtúr var síðan komið saman í Reiðhöllinni að Söndum og grillað.

Mótið fór afar vel fram og skemmtu þátttakendur sem og áhorfendur sér mjög vel. Mynd: Margrét Jómundsdóttir

Viðurkenningar voru veittar þeim er stóðu uppi efstir í hverjum flokki fyrir sig og var myndarstytta var veitt fyrir hest mótsins. Bíldælingurinn Gísli Ægir sá svo til þess að gestum leiddist ekki og stóð fjörið fram eftir nóttu. Fjöldi fyrirtækja gáfu vinninga í happadrætti Storms og sagði Margrét að félagið kunni þeim bestu þakkir fyrir það. Sagði hún að gaman væri að það kæmi fram að happadrættismiðarnir seldust upp og fengu færri en vildu. Stjórn Hestamannafélagsins Storms þakkar þeim fyrirtækjum sem tóku ákvörðum um að styrkja keppnisgreinar á mótinu.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA