Ben Salter með tónleika í Húsinu á Ísafirði 2. ágúst

Ben Salter er mjög spenntur fyrir tónleikum sínum á Ísafirði.

Ástralski tónlistarmaðurinn Ben Salter mun spila á Húsinu á Ísafirði fimmtudagskvöldið 2. ágúst næstkomandi. Ben Salter er einn virtasti tónlistarflytjandi og textasmiður Ástralíu og hefur haldið tónleika í yfir 20 ár. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna og eru tónleikar hans á Ísafirði hluti af tónleikaferðalagi hans um heiminn, International Madness Tour, sem hófst um miðjan júní síðastliðinn og stendur fram til loka september. Hann mun einnig heimsækja Akureyri, Siglufjörð, Bakkagerði, Breiðdalsvík og Reykjavík á tónleikum sínum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:15 og eru miðar seldir við dyrnar á Húsinu.

Ben Salter er fæddur í Queensland í Ástralíu en býr nú í Tasmaníu. Hann hefur komið tvisvar áður til Íslands og fannst það frábært í bæði skiptin. „Kærastan mín hún Jacqueline hefur aldrei komið áður og okkur fannst upplagt að koma hingað saman núna. Ísland er guðdómlega fallegt, eins og annar heimur. Ég get ekki beðið eftir að koma! Ég hef spilað áður á Ísafirði í Húsinu og það var frábært. En ég hef aldrei ferðast um norður eða austurlandið þannig að ég er líka mjög spenntur fyrir þeim hluta. Ég er að semja og flytja bestu tónlistina á ferli mínum þessa dagana og það gerir það að verkum að ég er enn spenntari fyrir heimsókn minni til Íslands! “ sagði Ben í samtali við BB.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA